08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í D-deild Alþingistíðinda. (3253)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Sigurður Eggerz:

Hart er að þurfa á hverju þingi að endurtaka sömu skýrsluna um fyrirkomulag vínsölunnar. Það var alvarleg ósk mín, að hægt væri að sneiða hjá því að hafa útsölustaði annarsstaðar en í Rvík. Og með þeim hug fór jeg utan, er reglugerðin var staðfest.

Þessi afstaða mín var í fullu samræmi við alla afstöðu mína til bannmálsins. Jeg held, að jeg geti öruggur vísað til þess, að jeg hafi staðið fast með bannmálinu. Jeg barðist áður gegn öllum undanþágum frá bannlögunum. Og er jeg var bæjarfógeti í Rvík, held jeg, að jeg hafi greinilega sýnt það, að jeg lagði minn skerf til þess að koma framkvæmd bannlaganna í sem best horf. En svo kom hinn örlagaþrungni tími, er velja skyldi um, hvort við vildum heldur veikja hina fjárhagslegu aðstöðu þjóðarinnar eða slaka til á bannlögunum. Við urðum að velja milli tveggja hugsjóna, verndunar hins fjárhagslega sjálfstæðis þjóðar vorrar og bannmálsins. Þeir, sem ábyrgðina höfðu, treystust ekki til þess að kippa aðalstoðunum undan fjárhag vorum og kusu því heldur hina leiðina, að láta undan síga í bannmálinu.

Jeg vík að því aftur, er jeg fór utan og endanlega skyldi gengið frá málinu, að þá fór jeg í þeim hug að hafa takmarkanirnar sem allra mestar, eða eina útsölu, í Rvík. En er jeg hafði ráðfært mig við formann nefndar þeirrar, er fór til Spánar fyrir vora hönd, en hann var einnig bannmaður, þá sá jeg mjer ekki annað fært en að haga málinu eins og nú er orðið.

Takmarkanir þær, sem gerðar eru, eru einnig, ef að er gáð, æði miklar, því enginn hreppur, ekkert kauptún á landinu þarf að hafa vínsölu. Það eru aðeins kaupstaðirnir. Og veitingar eru aðeins á einum stað, í Rvík. Úr því svo miklu var fórnað í þessu máli, þá mátti ekki með þessum reglugerðarráðstöfunum koma í veg fyrir það, að þessi fórn kæmi að fullum notum.

Það kom hjer ekki fyrir löngu síðan fram till. á þingi um að hækka tollinn á vínunum. Jeg rjeð þá eindregið frá því, að þetta væri gert, enda kom það á daginn síðar, að það var mjög heppilegt, að tollurinn var ekki hækkaður. Mjer er næst að halda, að ef hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefði staðið með sömu ábyrgð og jeg, þá mundi hann hafa hagað sjer eins í málinu.

Ef nú þessi till. hv. þm. yrði samþ., þá mundu auðvitað samskonar tillögur koma úr hinum öðrum kaupstöðum. Mundi nú hv. þm. í alvöru þora að mæla með því við landsstjórnina, að þessar tillögur yrðu allar teknar til greina?

Jeg býst við því, að enn fari svo, að þeir, sem ábyrgðina bera, líti á hinar fjárhagslegu þrengingar, sem mundu stafa af því, ef þessar ráðstafanir yrðu gerðar, sem væru varhugaverðar fyrir samninginn.

Um hitt get jeg verið sammála hv. þm., að það var þungt að þurfa að beygja sig í þessu máli. En úr því að nauðsynin heimtaði það, þá er að taka afleiðingunum. Ekki greiðist úr málinu, þó ósanngjörnum árásum sje beint að einstökum mönnum, fyrir aðgerðir, sem bygðar eru á þekkingu þeirra manna, sem best voru inni í málinu.