08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Flm. (Einar Árnason):

Jeg viðurkenni fyllilega, að hv. 1. landsk. (SE) er bannstefnunni trúr, enda er hann sjálfur bindindismaður. Hitt er annað mál, hvort honum hefir tekist að rata hinn rjetta meðalveg í þessu efni. Hann hefir aldrei sannað það, enda verður það tæplega sannað, þar sem reynsla er ekki til á öðru skipulagi þessa máls en því, sem nú er. Jeg veit, að hv. þm. hefir reynt að koma öðrum í skilning um, að honum hafi tekist að rata hinn rjetta veg í þessu máli, en mjer hefir ekki skilist, að honum hafi tekist að sannfæra áheyrendur sína um þetta.

Hv. 1. landsk. (SE) spyr mig, hvort jeg mundi greiða atkvæði með því, að aðrir kaupstaðir en Siglufjörður fengju að losna við vínsölustaðina. Jeg hefi tekið það fram áður, að jeg hefi þessa afstöðu til Siglufjarðarkaupstaðar vegna þess, að þar stendur alveg sjerstaklega á. Það er ekki aðeins hinn mikli fólksfjöldi, sem þar er saman kominn um aðalveiðitímann, heldur er einnig nálægð Siglufjarðar við Akureyri ein næg ástæða til að samþ. þetta. Jeg mundi og telja það nokkra bót, ef einhverjar takmarkanir væru settar á vínútsöluna á Siglufirði, t. d. ef þar aðeins væri leyft að selja vínin fyrri hluta dagsins. Þetta teldi jeg þó a. m. k. óhætt gagnvart Spánverjum og samningnum við þá. Jeg efast yfir höfuð um, að það sje rjett að gera jafnmikið úr áhættunni við takmarkanir á vínsölunni hjer á landi og hv. 1. landsk. (SE) og hæstv. forsrh. (JM) gera. En svo að jeg svari spurningu hv. 1. landsk., tel jeg mig alls ekki bundinn með atkv. mínu um þessa till. til þess að greiða atkv. með því að losa Akureyri við vínútsölu, þó það kæmi til orða.