08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (3261)

77. mál, vínsala ríkisins á Siglufirði

Jóhann Jósefsson:

Á síðasta þingi flutti jeg fyrirspurn til hæstv. stjórnar um það, hvort hún sæi sjer fært að leggja niður útsölu Spánarvínanna í Vestmannaeyjum. Var það gert eftir eindreginni áskorun þingmálafundar þar. Hefir sjálfsagt verið ætlast til þess, að jeg flytti þáltill. eins og þá, sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir hjer fram borið. En jeg vissi, hver hætta var á ferðum og hve afdrifaríkt það gæti orðið fyrir þjóðina og fjárhag hennar, ef ógætilegt spor væri stigið í þessu máli. Kaus jeg því að fara hina leiðina.

Nú eru liðin nokkur ár síðan áreksturinn varð milli Spánverja og Íslendinga. Frá okkar hálfu var þarna um lífsskilyrði að ræða fyrir annan helsta atvinnuveginn. Frá Spánverja sjónarmiði hefir það líklega litið svo út, að hjer væri ekki um Ísland eitt að ræða, heldur um grundvallarreglu, sem þeir beittu gegn öllum bannlöndum. Var því ekki við því að búast, að við gætum komist hjá hættulegu tollstríði við Spánverja, ef annað hefði verið gert en úr varð. Því var það, að nær allir þáverandi hv. þm. greiddu atkv. með undanþágunni frá bannlögunum. Mjer kemur ekki til hugar, að nokkur maður, jafnvel stækur bannmaður, muni ásaka þáverandi Alþingi og stjórn fyrir gerðir þeirra í þessu máli.

Hjer hefir í dag verið allhörð kappræða milli tveggja hv. þdm., hv. 1. landsk. (SE) og hv. 2. þm. S.-M. (IP). Báðir eru þeir einlægir bannmenn, en sá er munurinn, að annar hefir komist í að taka ákvörðun á stórhættulegum tíma um það, hvort meira bæri að meta, aðflutningsbann á ljettum vínum eða fjárhag landsmanna. Hinn hefir óneitanlega þægilegri aðstöðu, að standa ábyrgðarlaus utan við og gera athugasemdir frá sínu sjónarmiði eftir á. Jeg ætla ekki að fara að leggja neinn heildardóm á þá stjórn, sem þá sat hjer á landi, er samkomulagið fekst við Spánverja. En enginn, sem þekkir hug hv. 1. landsk. (SE) til bannmálsins, efast um, að hann hafi gert það, sem úr varð, til knúinn af hættunni, sem vofði yfir atvinnuvegum landsmanna.

Hv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði, að nú þegar væri sjálfsagt, að úr skæri um þetta mál. En jeg verð að kannast við, að jeg er ekki við búinn að stíga það spor, sem gæti fengið Spánverja til að kippa að sjer hendinni. Mjer finst ástandið hvorki leyfa það nje rjettlæta. — Jeg skal þó játa, að þeir, sem mest hafa barist fyrir að losna við útsölur vínanna, hafa mikið til síns máls, þar sem þeir vilja útrýma drykkjuskaparbölinu. En menn verða að kannast við, að það voru knýjandi ástæður, sem ollu því, að undanþágan var gerð, og þær sömu ástæður eru enn fyrir hendi. Má því ekki rasa fyrir ráð fram, og heilladrýgra getur verið fyrir framtíðina, að farið sje gætilega í sakirnar.

Hv. 1. landsk. (SE) sagði í einni af sínum ræðum, að flm. þessarar till. hlyti að vera ljóst, að hið háa Alþingi gæti ekki samþykt hana. Jeg veit nú ekki, hvort hv. flm. en það ljóst, en mjer er það fyllilega ljóst, að verði vínsalan lögð niður á einum stað, þá eiga aðrir kaupstaðir sömu kröfu um það. Jeg mundi þegar sjá mig til knúinn að bera fram samskonar till. fyrir mitt kjördæmi, og eins hygg jeg að yrði um ýmsa aðra. Hitt er annað mál, hvort jeg álíti það hyggilega gert að fækka útsölunum. Hæstv. forsrh. (JM) hefir ekki talið það óhætt, en hins vegar veit jeg, að stjórnin er fús á að athuga, hvað hægt er að gera í málinu, og fara svo langt sem hún sjer sjer fært. Það er vel hugsanlegt, að því hafi ekki verið nægur gaumur gefinn, hvort ekki væri hægt að gera einhverjar ráðstafanir í kaupstöðunum til að draga úr vínnautn. — Jeg á við ráðstafanir af hálfu hins opinbera, en ekki bindindisstarfsemi templara. — Jeg held því, að það rjettasta, sem hægt er að gera í þessu máli, eins og atvik liggja til, sje að vísa því til hæstv. stjórnar, í því trausti, að hún geri það, sem hægt er á hóflegan hátt, til að takmarka útsölu vínanna. Jeg þori ekki að heimta, að útsölurnar sjeu skilyrðislaust lagðar niður. En jeg álít, að verði till. hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) samþ., þá sje þar með sama sem komin samþykt um alla hina kaupstaðina. — Það er því tillaga mín, að málinu sje vísað til hæstv. stjórnar.