10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í D-deild Alþingistíðinda. (3275)

114. mál, aðstaða málfærslumanna við undirrétt

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg skal byrja á því, sem hæstv. ráðh. (JM) endaði á, tilefninu til þess, að jeg óskaði eftir, að mál þetta yrði tekið á dagskrá. Mjer var sem sje kunnugt um það, að þetta hafi eitthvað dregist, vegna þess að hæstv. stjórn taldi nauðsynlegt að útvega einhverjar upplýsingar. Og það hefir nú komið fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann hefir leitað sjer upplýsinga hjá málfærslumannafjelagi Reykjavíkur. Það er siður nú í Nd. að óska eftir málum á dagskrá, og hefir hvað eftir annað komið fyrir hjer líka, þegar svo mörgum málum er að sinna. Tel jeg þess vegna óþarfa viðkvæmni hjá hæstv. forseta og ekki síður hjá hæstv. ráðh. að firtast við þetta.

Jú, mjer er kunnugt um þær tillögur, sem hæstv. ráðh. (JM) stóð að fyrir nokkru, að skilja umboðsvaldið frá dómsvaldinu. En mjer finst mega telja það vanrækslu hjá honum, þar sem hann svo lengi hefir farið með dómsvaldið síðan, að hann hefir ekki gert neina tilraun áberandi til að koma þessu kerfi í framkvæmd, sem hann var búinn að vinna að. En af því að hann hefir ekki gert það, sem honum var skylt, þá verða aðrir að taka þetta mál til meðferðar.

En jeg geri ráð fyrir, að þessar umræður verði til þess að skýra málið, svo að það verði tekið upp á nægilega breiðum grundvelli. Jeg geri ráð fyrir að verða honum sammála um, að það beri að losa dómendur sem allra mest við annarlegt vafstur, og ekki síst pólitískt vafstur. Ef til vill er það höfuðgallinn á núverandi skipulagi, að undirdómarar verða að vera í öllum mögulegum snúningum. Þeir verða oft að kveða upp dóma, þar sem pólitískir vinir þeirra eiga hlut að máli eða nákomnir aðiljar, eða þá pólitískir andstæðingar. Koma þá vitaskuld þeir erfiðleikar til greina fyrir sýslumenn og bæjarfógeta að skifta um og gleyma baráttunni úr stjórnmálalífinu og komast í þá ró og næði, sem dómarastarfið heimtar.

Hæstv. ráðherra (JM) hafði það út á þetta að setja, að það sje fyrirspurn, en ekki í fyrirspurnarformi. Væri hann þess vegna ekki viðbúinn að svara, og telur það töluvert erfitt. (Forsrh. JM: Nei, fyrirhöfn). Það sýnir þá, að töluverð brögð hafa verið að þessu, að þurft hefir að kaupa setudómara. Því að ef það hefði komið fyrir mjög sjaldan, þá hlyti það að vera mjög svo auðvelt að gefa skýrsluna. Auðvitað er það dómsmálaráðh. en ekki fjrh., sem skipar setudómara, svo að það hlýtur að vera skjallega bókfest í deild þess ráðherra í hvert skifti, beiðni um útnefningu o. s. frv. En viðvíkjandi því, að þetta sje að vissu leyti bæði fyrirspurn og þál., er því til að svara, að jeg hugði, að þetta væri eftir atvikum mjög auðvelt fyrir mann, sem hefir þá aðstöðu, sem hæstv. forsrh. (JM) hefir, ekki síst þegar hann gæti stuðst við hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), þar sem hann á sæti hjer í hv. deild. Fanst mjer því rjett að taka þetta í einu lagi. Það getur ekki verið nema örsjaldan, að setja þurfi dómara t. d. í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, og jafnvel Hafnarfirði. Það er langoftast, að slíkt kemur fyrir hjer. Og það er af því, að bæjarfógetinn er oft fjarverandi, í siglingum á lögjafnaðarnefndarfundi, á þingi o. s. frv. Nú hefi jeg heyrt, að sonur hans sje að einhverju leyti skipaður dómari, og fljettast þá þetta þannig saman, að hann er stundum dómari við rjettinn og stundum málfærslumaður.

Hæstv. forsrh. (JM) hefir nú viðurkent, að það sje mikill kostnaður við þessa setudómara, og fyrir lausn málsins væri gott, að almenningur fengi að vita, hvort svo er, þá er hinn reglulegi dómari situr á þingi, að landið greiði þá líka laun setudómara, eða þá hvort dómarinn kostar hann sjálfur.

Það hefði verið hægðarleikur fyrir hæstv. forsrh. (JM) að svara því, hve oft hefði þurft að kveðja til setudómara hjer í Rvík vegna vensla. Þetta hlýtur að vera bókað hjá honum, og nægir þar ekki að vísa til Stjórnartíðindanna. Það ætti að vera ofurauðvelt fyrir hvaða stjórn sem er að gefa svona einfaldar upplýsingar. Í Englandi svara ráðherrar slíkum fyrirspurnum fljótt, og oft mörgum í senn.

Nú sem stendur er ekki hægt að banna neinum manni að starfa við undirrjettinn. Þetta er eitt af því, sem breytingar þarf á. Úr því svo strangar skorður eru settar um vensl starfsmanna í hæstarjetti eins og raun ber vitni um, þá leiðir það af sjálfu sjer, að útilokað verði líka í undirrjetti, að skyldleiki geti komið oft til greina, svo að dómari verði að víkja sæti.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að ekki væri hægt að banna venslamönnum dómarastörf við rjettinn. En þá er það a. m. k. velsæmiskrafa til dómarans, að hann auki ekki ríkinu kostnað vegna atvinnu náinna vandamanna sinna við rjettinn. Þó getur þetta ekki leyst aðalvandann. Það verður að koma ný löggjöf um þetta atriði, eins og hæstv. forsrh. (JM) játaði.

Verði gerðar rjettarbætur í þessa átt, þá sparar það fje og gerir dóminn betri. Þessu hefi jeg haldið fram, en því hefir hæstv. forsrh. (JM) engu svarað. Ef hæstv. forsrh. (JM) getur svarað 1. lið till. nú áður en þingi er slitið, þá mun jeg samþ., að málið verði tekið af dagskrá. En vilji hæstv. forsrh. ekki gefa upplýsingar um kostnaðaratriðið á þessu þingi, sýnist mjer, að till. geti gengið áfram nú og verði þá annaðhvort samþ. eða feld.