10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í D-deild Alþingistíðinda. (3276)

114. mál, aðstaða málfærslumanna við undirrétt

Forsætisráðherra (JM):

Hv. flm. var að tala um, að það væri velsæmiskrafa til dómara eða sonar að láta það ekki koma fyrir, að setudómara þurfi vegna skyldleika þeirra. Jeg álít það fráleitt að krefjast þess, að menn láti vera að nota þann rjett, sem þeir hafa að lögum. Nú er einhver maður, sem vill gera lögfræðisstarf að lífsstarfi sínu, og þá ætti stjórnin að koma og segja: Nei, góði minn, vegna þess að faðir þinn er dómari, þá máttu ekki flytja mál. — Þetta finst mjer svo fráleitt, að ekki sje orðum eyðandi að. Og að vera að tala um velsæmiskröfu í því efni, er ekki svaravert.

Jeg get ekki ímyndað mjer, að málflutningsmenn fari að skifta sjer af þessu máli. Sje jeg ekki, hvaða ástæðu þeir gætu haft til þess, eins og jeg hefi áður sagt.

Það er misskilningur eða röng frjett, að jeg hafi reynt að koma í veg fyrir, að till. yrði tekin fyr á dagskrá.

Á þeim grundvelli, er hv. flm. (JJ) flutti till., fanst mjer nóg að svara því, að það hefði nokkuð oft komið fyrir, að skipaður hefði verið setudómari, og að það hefði kostað nokkurt fje. Um þetta var samt óþarfi að spyrja, því að það stendur í landsreikningunum. Hitt er auðvitað alveg rjett, að það er kostnaður fyrir ríkissjóð, að sonur dómarans er málfærslumaður og flytur mál fyrir bæjarrjetti. Vitanlega kemur þetta og fyrir annarsstaðar, og það dettur engum í hug að reyna að leyna neinu um það.

Eins og jeg sagði áður, þá er fyrst ástæða til þess fyrir mig að svara hv. flm. (JJ) eftir að till. er samþ. Hann hlýtur að sjá, að það er óþarfi að skora á mig að svara, eftir að jeg hefi gert það. Mjer datt því ekki í hug, að jeg þyrfti að telja það alt upp á þessum fundi, sem um er spurt.