11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (3283)

120. mál, færsla póstafgreiðslustaðar

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Þessi till. er flutt samkvæmt samþykt þingmálafundar á Breiðumýri og erindi frá oddvita sýslunefndar, ásamt 2 fylgiskjölum.

Þetta er ekki nýtt mál; það hefir verið uppi æði lengi. Það kom fyrst fram þá er vegaskipun í Suður-Þingeyjarsýslu var breytt og akvegurinn var gerður frá Húsavík upp eftir hjeraðinu. Við það breyttist straumur ferðamanna og flutninga. Frá því að liggja áður að austanverðu, um Grenjaðarstað, og yfir brúna á Laxá, fluttist hann vestur yfir Laxá, eftir akbrautinni. Við þá breytingu varð Breiðumýri miðstöð vegakerfis þessa hjeraðshluta. Þjóðvegurinn milli Akureyrar og Húsavíkur liggur þar um. Einnig liggur akbrautin upp Reykjadal þaðan, áleiðis til Mývatns, og vegur fram Seljadal, er liggur vestan fram með Reykjadalnum, svo og gamli þjóðvegurinn yfir í Laxárdal og upp að Reykjahlíð. — Breiðumýri er þannig á verulegum krossgötum, og vegirnir, sem að liggja, tíðfarnir mjög.

Fyrir skömmu varð sú breyting á, að reist var sláturhús á Breiðumýri fyrir framsveitirnar: Mývatnssveit, Bárðardal, Fram-Reykjadal og Mývatnsheiði. Komst þá sú venja á, að framsveitirnar fengu allar nauðsynjar sínar fluttar frá Húsavík til Breiðumýrar á vögnum og nú síðast á bifreiðum, og svo skiluðu þær afurðum sínum á Breiðumýri, sem þannig varð í raun rjettri viðskiftastöð þessara sveita, og þar stöðugur straumur ferðamanna. Þetta varð til þess, að smám saman fundu menn nauðsyn þess, að póstafgreiðslan kæmi þar. Þess má og geta, að á Breiðumýri er einnig læknissetur og þinghús, og þar hafa allir fjölmennustu fundir í hjeraðinu verið haldnir upp á síðkastið. Og enn má nefna, að fjölmennur alþýðuskóli er þarna mjög nærlendis.

Jeg hefi með þessu viljað benda á þá sjerstöku aðstöðu, sem Breiðumýri hefir sem afarfjölsótt samgangnamiðstöð, og að hún er þess vegna sjálfvalin sem póstafgreiðslustaður, enda hafa óskir um það beint komið fram vegna þæginda fyrir almenning. Á sumrin eru svo að segja daglega bifreiðaferðir milli Húsavíkur og Breiðumýrar, og þess vegna er mjög þægilegt að koma póstflutningum þar í milli. Hins vegar má geta þess, að Grenjaðarstaður er þvert úr leið, 2–3 km. frá þjóðveginum.

Árið 1917 samþ. sýslunefndin ósk um það, að póstafgreiðslan yrði flutt að Einarsstöðum (eða Breiðumýri, sem er alveg hið sama, því að ekki er steinsnar á milli), og var sú samþykt bygð á eindreginni ósk hjeraðsbúa og póstafgreiðslumannsins í Húsavík. Þessi samþykt var send til stjórnarráðsins, en um málið fengust þó engin úrslit, og veit jeg ekki, hvað því hefir valdið.

Í fyrra skrifuðu svo oddvitar þriggja hreppa, Skútustaða-, Reykdæla- og Aðaldælahreppa, erindi til póststjórnarinnar um, að færslu póstafgreiðslunnar til Breiðumýrar yrði komið í framkvæmd. Þeir skýrðu af nýju rjettmæti málsins og þægindi almennings við þessa breytingu. Fjelst aðalpóstmeistari á, að rjett mundi að færa póstafgreiðsluna, og tjáði mjer með brjefi 14. apríl f. á., að fyrirhugað væri að flytja hana um næstu áramót að Breiðumýri eða Einarsstöðum. En af þeirri færslu varð samt ekki, er til kom, og var því barið við, að ráðherrann hefði ekki viljað samþykkja færsluna.

Á þingmálafundi á Breiðumýri í s. 1. janúar var svo enn af nýju samþ. áskorun þess efnis, að þingið hlutaðist til um, að margnefnd póstafgreiðsla væri flutt að Einarsstöðum eða Breiðumýri. Og á nýlega afstöðnum sýslufundi var málið flutt fram og þar samþ. yfirlýsing um, að á Breiðumýri væri póstafgreiðsla best sett vegna vegakerfis sýslunnar. En fundurinn fjelst á, að breytingin yrði ekki gerð fyr en Reykjadalsbrautin er komin á sveitarenda, eða upp að Másstöðum.

Hefi jeg svo reynt að samræma þessa till. við gerðir sýslufundarins, því að jeg þykist sjá, að um ákvörðun fundarins hafi orðið samkomulag þeirra, er öndverðir hafa staðið til þessa um flutning póstafgreiðslunnar. — Er þess ekki að dyljast, að þeir, sem búa í nágrenni við Grenjaðarstað, hafa, með póstafgreiðslumanninn þar í fararbroddi, mjög ákveðið mótmælt færslu póstafgreiðslunnar þaðan frá því fyrsta. Hafa margskonar mótmæla- og undirskriftaskjöl borist frá þessum mönnum til póststjórnarinnar, án þess þau hafi verið nokkuð lögð fyrir eða kynt heima í hjeraði. Er það vel skiljanlegt og eðlilegt, að nágrenni Grenjaðarstaðar vilji hafa póstafgreiðsluna þar kyrra. Mun þeim mönnum, er þar eiga hlut að, m. a. þykja það rýrð á þessu forna og fræga höfuðbóli, að póstafgreiðslan flytjist þaðan burtu. En það er veigalítil ástæða og fremur barnaleg. Jeg hefi ekki kynt mjer þessi mótmælaskjöl neitt að ráði, þó póstmeistari hafi að vísu gefið mjer þess kost, en það er heil syrpa. Ætla jeg ekki að ganga nánar inn á þetta. En jeg ætla aðeins að benda á, að hjer er ekki nema um mjög lítinn hluta manna að ræða, af þeim, er málið snertir, saman borið við alla hina, er færslunnar krefjast og telja hana til hagsmuna fyrir sig.

Geta allir sennilega fallist á, að endurteknar yfirlýsingar og tillögur sýslunefndar um málið megi taka fullgildar og sæmilega ábyggilegar.

Af færslu póstafgreiðslunnar leiðir að sjálfsögðu breyting á póstleiðum og brjefhirðingastöðum, sem póststjórnin vitanlega ákveður, þegar til kemur, eftir nánari athugun þess máls og tillögum viðkomandi hreppa.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um till. Vona jeg, að hv. þdm. skiljist, að efni till. sje svo sanngjarnt, að þeir treysti sjer til að samþykkja hana.