11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

120. mál, færsla póstafgreiðslustaðar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Strax þegar þessi þáltill. kom fram, sendi jeg hana til aðalpóstmeistara og bað hann að gefa mjer upplýsingar um málið, því að jeg er því tiltölulega ókunnugur. Jeg hefi aldrei í þessa sýslu komið og get því eigi dæmt um, hvað heppilegast er fyrir hjeraðsbúa. Jeg hefi nú fengið erindi frá aðalpóstmeistara um þetta. Skilst mjer, að hann leggi ekki til, að póstafgreiðslan á Grenjaðarstað verði lögð niður, heldur verði bætt við póstafgreiðslu t. d. á Einarsstöðum. Tekur hann það fram, að lítill munur sje nú orðið á póstafgreiðslu og brjefhirðing hvað kostnað snertir.

Að svo vöxnu máli get jeg ekki lagt til, að till. verði samþykt, en sökum naums tíma hefi jeg ekki haft tækifæri til að setja mig inn í þetta mál sem skyldi.

Jeg vil geta þess, að aðalpóstmeistari hefir sent mjer mótmælaskjöl þau, er hv. flm. (IngB) mun eiga við. Eru þau frá í febrúar þ. á. Tilefni þeirra er ályktun þingmálafundar á Breiðumýri í vetur. Þessi mótmæli eru á einu skjali frá 72 mönnum, á öðru frá 20 mönnum og í þriðja lagi frá hreppsnefnd Aðaldælahrepps. Þó eru undirskrifuð aðeins fjögur nöfn hreppsnefndarmanna, og sýnist mjer það muni vera oddviti, sem vantar. Ennfremur hafa allir póstar, sem hlut eiga að máli, tekið undir þessi mótmæli. Vona jeg, að hv. flm. telji ekki undarlegt, þótt jeg sje ekki við því búinn að taka afstöðu. En jeg er fús til að athuga málið, útvega þau gögn, sem hægt er, og afla mjer sjálfstæðrar skoðunar á því.

Það getur ekki verið neitt sjerstakt áhugamál að flytja póstafgreiðsluna frá Grenjaðarstað, ef póstafgreiðsla kemur líka á Breiðumýri eða Einarsstöðum. Menn munu ekki hafa búist við að geta fengið póstafgreiðslu á báðum stöðunum. En aðalpóstmeistari upplýsir, að af því stafi lítill kostnaðarauki, gerir lítinn mun á störfum póstafgreiðslu og brjefhirðingar.

Jeg vil annars segja það, að mál eins og þetta heyrir í rauninni ekki undir Alþingi, og er það dálítið varhugaverð braut, sem hjer er farið inn á, að það ákveði póstafgreiðslustaði og póstleiðir. En hv. þm. (IngB) vil jeg segja það, að þó svo fari, að till. verði feld, mun það ekki hafa nein áhrif á athugun mína á þessu máli og afstöðu mína til þess.

Það er vitaskuld aðalpóstmeistari, sem mest hefir að segja um svona atriði. Geti hann fært til gild rök og góð, tel jeg mjer erfitt að leggjast þar á móti. En til þess að vita, hvort rök eru rjett eða ekki, verður maður að þekkja staðhætti og aðstæður allar. (IngB: Hefir hæstv. ráðh. kynt sjer brjef til póststjórnarinnar frá því í fyrravetur?). Nei, ekki önnur erindi en þessi, dagsett í febrúar þ. á. Minnist jeg ekki, að mjer hafi fyr verið gefin ástæða til þess frá hv. þm. (IngB) að taka afstöðu til þessa máls.

Aðalpóstmeistari stakk upp á því við mig, að tveir yrðu póstafgreiðslustaðir, annar á Grenjaðarstað, en hinn á Einarsstöðum eða Breiðumýri. Er jeg leit svo á, að það væri dýrara, og var því ekki um það gefið. Fjell það svo niður.

En nú, er póstmeistari hefir skýrt frá, að ekki sje um kostnaðarauka að ræða, mundi jeg varla hafa á móti því, ef hann telur það heppilegt, eins og mjer skilst á brjefi hans.