11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

120. mál, færsla póstafgreiðslustaðar

Björn Líndal:

Skoðanir manna heima í hjeraði á þessu máli eru svo skiftar, að það er óverjandi, að Alþingi fari að blanda sjer í það, eins og nú standa sakir.

Út af fundarsamþyktinni á Breiðumýri í vetur vil jeg geta þess, að til þess fundar var ekki boðað á þann hátt, að mikið sje á henni að byggja. Var aðeins boðað til hans á litlu svæði kringum Breiðumýri, án þess að kjósendur lengra frá vissu um. Þykir mjer ólíklegt, að hv. þm. S.-Þ. (IngB) rengi þetta, enda er mjer auðvelt að sanna mál mitt, er heim kemur í hjerað. Fundurinn var aldrei opinberlega auglýstur. En jeg ætla ekki að ásaka hv. þm. fyrir þingmálafundaleysi, heldur aðeins vekja athygli á því, að ekki er að marka samþykt svo fámenns fundar, sem þar á ofan er haldinn af nágrönnum Breiðumýrar.

Jeg skal játa, að jeg er ekki persónulega kunnugur staðháttum. En fróðir menn og kunnugir hafa sagt mjer, að hin nýja, fyrirhugaða póstleið muni reynast erfiðari og snjóþyngri en sú, er nú er farin, og megi ganga út frá því sem gefnu, að póstur verði iðulega á vetrum að fara gömlu leiðina til Grímsstaða. Get jeg nefnt góða heimildarmenn þessa, þótt ekki þekki jeg til af eigin reynslu.

Jeg sje því ekki, að rjett sje að samþykkja till. eða skora á póststjórnina að breyta til. Hins vegar get jeg fallist á, að ríkisstjórn og póststjórn athugi málið og kynni sjer málavöxtu. Geri jeg því að till. minni, að málinu sje vísað til stjórnarinnar.