11.05.1926
Neðri deild: 76. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í D-deild Alþingistíðinda. (3287)

120. mál, færsla póstafgreiðslustaðar

Flm. (Ingólfur Bjarnarson):

Mjer þykir leitt, að hæstv. atvrh. (MG) þykist ekki geta gengið inn á, að þáltill. sje samþ. Færði hann þau rök fyrir því, að hann væri þessu ókunnugur og hefði ekki haft tækifæri til nægilegrar athugunar.

Þetta er dálítið undarlegt, því að í fyrra voru send ítarleg erindi um flutning póstafgreiðslu frá Grenjaðarstað að Breiðumýri eða Einarsstöðum, þar sem greinilega og ljóst var sýnt fram á rjettmæti þessarar færslu. Erindi þessi voru frá hreppsnefndaroddvitum 3 hreppa: Skútustaða-, Reykdæla- og Aðaldælahreppa. Þessi erindi voru send til póststjórnarinnar og jafnframt skírskotað til fyrri aðgerða um málið, frá 1917. Fjelst aðalpóstmeistari á rjettmæti erinda þessara í brjefi, er hann skrifar mjer 14. apríl f. á. Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lítinn kafla úr því:

„Eftir að jeg hafði móttekið brjef yðar, herra alþingismaður, dags. 13. f. m., hef jeg með brjefi 23. s. m. sagt póstafgreiðslumanninum á Grenjaðarstað upp sýslaninni frá næsta nýári að telja, með því að það væri í ráði, að póstafgreiðslan yrði þá flutt, annaðhvort að Breiðumýri eða Einarsstöðum“.

Eftir að þessar undirtektir póstmeistara um málið urðu kunnar, var talið sjálfsagt, að póstafgreiðslan yrði flutt frá nýári ’26, en í stað þess fæ jeg brjef 8. okt. 1925 frá póstmeistara, sem jeg, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa upp: „Jeg læt eigi hjá líða að tjá yður, hr. alþingismaður, í sambandi við brjef mitt til yðar, dags. 14. apr. þ. á., að ráðherrann hefir eigi viljað samþykkja flutning póstafgreiðslunnar frá Grenjaðarstað, svo að hún verður þar kyr næsta ár, ef sjera P. Helgi Hjálmarsson vill taka að sjer að annast hana.

S. Briem“.

Mig furðaði mjög á þessum lyktum málsins, en datt hins vegar ekki í hug annað en að beiðnin um færsluna hefði verið lögð fyrir ráðherrann, áður en hann neitaði um samþykki sitt til hennar. Og vegna þessara úrslita málsins er það nú lagt fyrir Alþingi.

Þykir hlutaðeigandi hjeraðsbúum afgreiðsla málsins einkennileg. Barst mjer brjef frá oddvita sýslunefndar S.-Þ. ásamt erindum frá oddvitum tveggja viðkomandi hreppa, er krefjast, að málinu sje skotið til Alþingis.

Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp, til skýringar málinu, brjefið frá oddvita Skútustaðahrepps:

„Gautlöndum, 18. des. 1925.

Í tilefni af erindum þriggja sveitarstjórna hjer í sýslunni, sem póststjórninni yfir Íslandi voru send í fyrravetur og fjölluðu um breytingar á póstgöngum innan hjeraðs, sagði póstmeistari póstafgreiðslumanninum á Grenjaðarstað upp starfi hans frá n. k. nýári, með það fyrir augum, að aðalpóststöðin yrði flutt fram að Einarsstöðum eða Breiðumýri. En í síðastl. októbermánuði afturkallaði hann þessa ráðstöfun og skipaði prestinn á Grenjaðarstað til að gegna starfinu áfram. Þar eð ókunnugt er, að nokkrar sjerstakar, almennar ástæður standi á bak við þessa afturköllun, er hjer með skorað á oddvita sýslunefndarinnar hjer í sýslu að taka þetta mál upp til að leggja fyrir næsta Alþingi, á þeim grundvelli, sem sýslunefnd lagði fyrir þessu máli á aðalfundi sínum 1917. — Að öðru leyti vísast til meðferðar málsins þá og meðfylgjandi skilríkja, er upplýsa málavexti nánar en hjer er gert.

D. u. s.

F. h. sveitarstj. Skútustaðahrepps.

Jón Gauti Pjetursson“.

Af þessu má glögt sjá, að aðiljar þessa máls gera sjer ekki að góðu, að því sje eytt með drætti og undanfærslu. Og tel jeg eðlilegt og rjettmætt í alla staði, að það komi fyrir Alþingi, með tilliti til þess, er á undan er gengið. Og verð jeg að halda fast við till., að hún verði lögð fyrir hv. deild, og mælast til, að hún verði samþykt. Það þýðir annars ekki hjer að tala nánar eða frekar um fyrirkomulag færslunnar. Aðalatriðið er, að póstafgreiðslan verði flutt að Breiðumýri. Sjálfsagt yrði í sambandi við það breytt póstleiðinni, af því að það er mikill krókur út að Grenjaðarstað. En það geta komið fleiri leiðir til greina en ein. En um þetta mundi póststjórnin á sínum tíma taka ákvarðanir, og eins um brjefhirðingar og breyttar aukapóstleiðir.

Hæstv. atvrh. (MG) talaði um, að þetta væri varasöm braut, að leggja málið undir úrskurð Alþingis, en með því að fara hina leiðina, að leita til póststjórnarinnar, hefir málinu verið eytt og það dregið á langinn, sbr. síðustu meðferðina, er hæstv. atvrh. hefir ekki fengið öll gögn málsins í hendur, en þó borið við, að hæstv. ráðh. vilji ekki samþykkja færslu póstafgr. að Breiðumýri.

Hv. þm. Ak. (BL) talaði um, að þingmálafundurinn á Breiðumýri hafi verið illa boðaður. Hann var boðaður um hreppana austan Ljósavatnsskarðs, en í þeirri ótíð og ófærð, sem var á þeim tíma, taldi jeg þýðingarlaust að senda fundarboð um instu hreppa sýslunnar, en í öllum hinum hreppunum var hann boðaður símleiðis. En jeg get sagt hv. þm., að á fundinum var mættur talsmaður póstafgreiðslunnar á Grenjaðarstað, svo hennar málstaður var fyllilega dreginn þar fram.

Jeg man nú ekki, hvort það er fleira, sem jeg þarf að taka fram. Sem sagt, um póstleiðimar ætla jeg ekki að ræða, því að það liggur ekki fyrir hjer.