18.02.1926
Efri deild: 8. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

13. mál, löggiltir endurskoðendur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil aðeins lýsa yfir því, að jeg fellst á brtt. hv. nefndar, enda hefi jeg átt kost á því að tala við hana um þær. Jeg tel þær báðar til bóta, og þó einkum þá síðari nauðsynlega, enda hafði þetta orð, sem um er að ræða að bæta inn í frv., fallið úr því af vangá. Að svo mæltu þakka jeg hv. nefnd fljóta og góða afgreiðslu á þessu máli, og virðist hún ætla að verða sönn fyrirmynd hvað snertir góða og skjóta afgreiðslu.