14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í D-deild Alþingistíðinda. (3301)

115. mál, sjúkratryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get ekki aðhylst till. eins og hún liggur fyrir. Er undarlegt, að settur skuli sá tími, að ómögulegt verði fyrir stjórnina að athuga frv., er það kemur frá refndinni. En jeg þykist skilja, að það sje gert til að fyrirbyggja, að það geti orðið stjórnarfrv.

Jeg lít svo á, án tillits til þess, hvaða stjórn situr að völdum, að stjórnarfrv. sjeu að jafnaði betur undirbúin en einstakra þm., og það þó nefndir hafi um fjallað. Hjer er heldur engin trygging fyrir, að þeir menn, er kosnir verða í nefndina, sjeu æfðir í lagasmíð, nema þá kanske einn þeirra.

Jeg skoða till. sem olnbogaskot í stjórnina, til þess að bægja henni frá að hafa afskifti af þessu máli. Jeg hafði hugsað mjer að gera eitthvað í þessu máli fyrir næsta þing, en það fer eftir atvikum, hvort hægt verður, og gef jeg því ekkert loforð. Till. herðir ekkert á um það, því að jeg skoða hana sem olnbogaskot. Þó að það sje kanske meinlaust, vildi jeg þó láta hv. flm. (JBald) vita, að jeg hefi tekið eftir því.