14.05.1926
Efri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

115. mál, sjúkratryggingar

Jónas Jónsson:

Jeg skal taka það fram, að landlæknir hefir lagt mikla áherslu á það, að þessi till. næði fram að ganga. Í því efni hefir honum ekki gengið annað til en áhugi fyrir málefninu. Það getur nú verið, að hann sætti sig við það, að hæstv. stjórn geri þetta, sem hjer er fram á farið. Og að vísu er það svo, að hjer er ekki farið fram á fjárútlát svo að heitið geti, aðeins 600 krónur, og að því leyti er þetta ekki frágangssök. En mig langar til þess að segja, þótt jeg ætli mjer alls ekki að erta hæstv. atvrh. (MG), að þess eru dæmi, að jafnvel stjfrv. ganga seint og treglega í gegnum þingið. Jeg skal t. d. minnast á útsvarsfrv., sem nær hafði strandað í hv. Nd. Þess vegna tel jeg ekki alveg víst, að hæstv. stjórn takist svo höndulega við þetta frv., að það renni í gegnum næsta þing, síst fremur en ef nefnd gerði það.