14.05.1926
Efri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í D-deild Alþingistíðinda. (3315)

115. mál, sjúkratryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg verð að segja hv. 3. landsk. (JJ), að jeg er alls ekki óánægður með þær undirtektir, er útsvarsmálið fjekk hjer í þinginu. Jeg get ekki hugsað mjer, að erfiðara sje að gefa löggjöf á neinu sviði en því. En í þessu máli, er hjer liggur fyrir, er spurningin sú, hvort við sjeum nokkru bættari með því að skipa nefnd í málið. Jeg segi þetta ekki vegna þess kostnaðar, sem af till. leiðir, því að hann er ekki mikill, heldur af því að jeg efast um, að unt sje að fá svo áhugasama og ósjerplægna menn, að þeir vilji leggja þetta starf á sig fyrir þessa litlu borgun.

Það er líklegt, að landlæknir hafi áhuga fyrir málinu, og þá er rjett, að stjórnin leiti til hans um samning frv.

Slysatryggingarfrv., sem er nokkuð skylt þessu frv., var undirbúið af nefnd manna og varð að lögum um síðustu áramót. Það er því svo að segja nýkomið til framkvæmda. En ekki höfðu liðið 2 mánuðir frá því, er þau lög gengu í gildi, þangað til kvartanir fóru að koma út af þeim. Og vilji hv. 3. landsk. (JJ) vita, hvaðan kvartanir komu fyrst, þá vísa jeg honum um upplýsingar í því efni til flokksbróður síns, hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Þetta er nægilegt til þess að sýna, að ekki er alt fengið með því, að nefnd undirbúi frv.