13.02.1926
Neðri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (3320)

19. mál, milliþinganefnd um síldveiðilöggjöf

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það mun vera talið ekki hvað síst verkefni löggjafarvaldsins að skapa þjóðinni góða atvinnulöggjöf. Við erum vafalaust í því eftirbátar ýmsra þjóða. Og eiginlega er það ekki tiltökumál, því í ýmsum greinum hafa hjá okkur á síðustu árum orðið svo miklar breytingar í atvinnuháttum þjóðarinnar, að það er tæplega von til þess, að við höfum getað áttað okkur til fulls á því, til að setja lög um þær atvinnugreinar, sem sýslað er við. Má jafnvel segja, að til sje ýmislegt í atvinnuvegunum, sem við höfum ekki fengið næga reynslu fyrir enn þá til þess að geta gert lög þar um, sem við ættum víst að stæðu til langframa.

Hinsvegar býst jeg við, að flestir líti svo á, að þannig muni ástatt um þetta mál, að einhverra ráða þurfi að leita til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem komið hafa í ljós í þessum atvinnurekstri á undanförnum árum. Síldveiðin hefir á síðustu árum verið stunduð í stórum stíl hjer við land, og miklu meira af útlendum mönnum en innlendum. Því miður er þannig ástatt, að þótt við vildum hlutast til um veiðiskap þeirra hjer við land, þá getum við ekki nú náð til fulls til þeirra með löggjöf okkar. Hinsvegar finst mjer — og jeg hygg, að flestir muni vera mjer þar sammála — að við ættum að reyna að ná til þeirra með löggjöf okkar, eftir því sem við frekast getum. Sú starfsemi, sem þeir hafa rekið hjer alllanga stund, hefir orðið þjóðinni til ákaflega mikils meins. Ekki eingöngu þeim innlendu mönnum, sem stundað hafa þennan atvinnurekstur, heldur líka öðrum atvinnugreinum, og verkafólki yfirleitt á landi hjer. Jeg hygg því, að það sje ekki úr vegi, að við reynum að hafa áhrif á þetta mál, eftir því sem við getum. Það hefir verið haft á orði, á síðustu 2 árum að minsta kosti, að kapp hinna útlendu manna á þessum atvinnuvegi hjer á landi hafi mjög aukist. Á síðastl. sumri mun það hafa komið í ljós, að útlendingar, sem hafa rjettindi á við landsmenn, sem sje Danir, hafi notað sjer aðstöðu sína til þess að hleypa annara þjóða mönnum hingað. Jeg á hjer við þá leppmensku, sem uppvís varð á síðasta sumri. Danskir menn hafa sent hingað skip til útgerðar, en skipin voru eign manna úr öðrum ríkjum.

Það, sem sjerstaklega gerir innlendum mönnum þennan atvinnurekstur mjög svo hæpinn og jafnvel skaðlegan, er það, að menn vita ekki fyrirfram, hvað mikið kann að seljast af síldinni í það og það skiftið. Þegar vel veiðist og mætti ætla vinningsvon einna mesta, þá hefir það oft snúist svo, að enn meira tap hefir orðið en þegar lítið veiddist. Þessi ágalli hefir verið það tilfinnanlegur, að þeir, sem síldveiði reka, hafa oft orðið fyrir svo þungum búsifjum, að þeir hafa ekki megnað að stunda þennan atvinnurekstur áfram. Á þessum og þvílíkum agnúum þyrfti að ráða bót, eins og mögulegt er. En þegar lítið veiðist, hefir fólkið, sem leitar til þessara verstöðva, mjög lítið í aðra hönd. Hinsvegar er það alkunnugt, að á þessum stöðum hefir safnast sú mergð af fólki, að þótt sæmilega veiðist, hefir það ekki haft nóga vinnu. Býst jeg ekki við, að hægt sje að saka þá, sem atvinnuna reka, um það, að fólkið flykkist til verstöðvanna. Það virðist ekki hirða svo mikið um, hvort það beri nokkuð úr býtum að starfstímanum loknum eða ekki. Af þessu hefir orðið hið mesta þjóðartjón. Mjer er sagt af kunnugum mönnum, sem stundað hafa þennan atvinnurekstur nú um skeið, að fólkið sje í sumum verstöðvunum svo margt, að þótt veiðiskapur sje mikill, þá sje vinnan ekki meiri en sem svaraði annan eða þriðja hvern dag. Tjónið, sem þjóðinni er að slíku framferði, verður varla tölum talið. Fyrst og fremst tap starfseminnar, hið mikla vinnuafl þess fólks, sem dvelur þarna við lítið starf, vinnuafl, sem tekið er frá öðrum atvinnugreinum, sem arðsamari eru. Í annan stað segir það sig sjálft, að þar sem margt fólk er safnað saman og hefir ekkert að sýsla, þá grípur það til ýmsra hluta til þess að eyða tímanum, sem verður til að spilla fólkinu sjálfu. Að þessu öllu er þjóðinni í heild sinni hið mesta mein. En úr þessum og þvílíkum agnúum býst jeg ekki við að unt verði að ráða bót, nema með einhverju því skipulagi, sem trygði það, að fleiri leituðu ekki til þessara staða en öll von er til að geti haft viðunandi atvinnu. Nú á síðastliðnum árum hefir brytt talsvert á því, að vantað hefir fólk til ýmsra starfa, þeirra sem miklu arðvænlegri eru en síldarvinna, þegar á alt er litið. Til landbúnaðarstarfa hefir fólk vantað tilfinnanlega að sumrinu til, og einnig hefir jafnvel komið fyrir, að útgerðarmenn, sem fisk hafa haft til verkunar að sumarlagi, höfðu tæplega nógu margt fólk. Hygg jeg, að þetta stafi mjög af því, að alt of margir hópast til síldarstöðva.

Með þessari till., sem jeg hefi leyft mjer að bera fram, hefði jeg gjarnan viljað, að stigið yrði það spor, að unt verði að koma einhverju betra skipulagi á þennan atvinnurekstur, og að til þess að athuga þetta mál yrðu valdir kunnugir og vel hæfir menn. Og þó að jeg tiltaki þennan mannafjölda í till., er fjarri því, að jeg ætlist til, að sú tala verði frekar látin ráða en önnur, ef heppilegra þykir. Jeg ætlast ekki til, að till. þessi komist óbreytt gegnum þingið. Aðalatriðið er, að málefninu verði sint og reynt að greiða úr á einhvern hátt. Jeg geri ráð fyrir, af því að þessi till. er það umfangsmikil og grípur inn á allmikilsvarðandi svið, að þá yrði þessari umræðu frestað, en till. vísað til sjútvn., og mönnum gefist kostur að ræða málið ítarlega, þegar frá nefndinni kemur. Annars ber jeg fult traust til sjútvn., að hún geri till. úr garði eftir því, sem best má verða.

Það er mín persónulega skoðun, að líklegasta leiðin til umbóta á þessu sviði sje sú, að takmarkað yrði, hve mikið megi salta af síld til útflutnings.

Í annan stað get jeg vel búist við, að frekari áherslu þurfi að leggja á það, að innlendir menn komi upp síldarverksmiðjum og eignuðust þær síldarverksmiðjur, sem fyrir eru í landinu.

Viðvíkjandi takmörkun veiðinnar hefi jeg hugsað mjer, að hún yrði að nokkru leyti gerð með löggjöf. En svo hefði í öðru lagi nefnd manna þann starfa með höndum — fyrst og fremst innan þess vissa ramma, sem löggjöfin setti — að ákveða, hversu mikið mætti salta á hverju sumri, og jafnframt ráða sölu síldarinnar til útlanda.

Um útlendingana, sem eiga síldarverksmiðjur hjer á landi og hafa haft mikla starfrækslu í mörg ár, vildi jeg segja það, að jeg teldi hina mestu nauðsyn á, að við legðum eins mikið kapp á að bægja þeim frá þessari starfsemi eins og frekast er unt. Þeirra starfssemi hefir verið, eftir því sem jeg þekki til í þessu efni, landinu í heild sinni til hins mesta meins. Hygg jeg, að það væri mjög vel farið, ef við gætum sem allra fyrst bægt þeim frá þessari starfsemi hjer á landi að fullu og öllu. Jeg sje auðvitað þann agnúa á, að þrátt fyrir það geta þeir stundað veiðiskap þennan utan landhelginnar. En þó hygg jeg, að ef okkur lánaðist að hefta starfsemi þeirra að öllu leyti innan landhelginnar og á landi, þá stæðum við mun betur að vígi.

Jeg hefi ekki hitt fyrir einn einasta útgerðarmann, sem ekki telur hina brýnustu nauðsyn á bættu skipulagi. Og jeg held, að það sje bein skylda löggjafarvaldsins að stuðla að því, eftir því sem það sjer frekast fært að hlutast til um málið.