13.02.1926
Neðri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

19. mál, milliþinganefnd um síldveiðilöggjöf

Jón Baldvinsson:

Jeg get ekki annað en glaðst yfir því, að þessi till. er komin fram, sem hv. 2. þm. Árn. (JörB) flytur að þessu sinni. Það hafa á hverju þingi komið fram till. um síldarmálið, en fengið misjafnar undirtektir. Þær hafa sem sje fengið undirtektir eftir því, hvernig síldveiðin hefir gengið næsta ár á undan. Árið 1921 fengu slíkar till. í þinginu allgóðan byr, af því að síldarsalan hafði gengið illa árið áður. Þá voru samin lög í þinginu, sem miðuðu að því að koma skipulagi á þennan útveg, þar sem útgerðarmenn voru skyldaðir til að mynda fjelagsskap. Jafnframt því voru ríkinu heimiluð talsverð yfirráð, ef útgerðarmenn ljetu undir höfuð leggjast að mynda þennan fjelagsskap. Þessi lög voru nú þannig gerð, að þau þóttu ekki nothæf, þegar til stjórnarinnar kom, og komust víst aldrei til neinna framkvæmda. En málinu hefir verið haldið vakandi í þinginu. Sú leið, sem jeg hefi bent á, er sú, að ríkið hafi einkasölu á allri síld, sem flutt er út.

Það hafa altaf legið á síðustu árum frv. fyrir þinginu, sem þó hafa ekki náð fram að ganga. Það gleður mig, að hv. þm. virðast nú vilja gera eitthvað í þessu máli, en jeg geri ráð fyrir, að ástæðan sje sú, að síldarsalan gekk ákaflega illa á síðasta ári. Og þeir, sem liggja með síld, tapa mjög miklu. En landið í heild sinni tapar líka á því og ekki eingöngu útgerðarmenn, heldur einnig verkafólkið.

Viðvíkjandi þessari till. þarf jeg ekki að segja mörg orð, af því að jeg býst við henni til sjútvn., þar sem jeg á sæti. En till. er ákaflega óákveðin, og hinsvegar græddist lítið á flutningsræðu hv. 2. þm. Árn. (JörB), af því að hann benti ekki á neitt verulegt, sem unt er að framkvæma. Mjer virðist t. d. ákaflega erfitt að takmarka síldveiðina. Það verður þá að vera þannig, að menn sæki um leyfi til stjórnarinnar til þess að mega veiða síld. Er jeg hræddur um, að það þætti mönnum þröngt. Væri nú hinsvegar sú leið farin, að ríkið hefði allan útflutning, þá yrði þar með tekið fyrir það, að útlendingar gætu haft málið í sínum höndum, eins og nú. Það, sem líka þarf að gera, er að afla síldinni markaðs. En það virðist einmitt ganga ákaflega stirt hjá þeim mönnum, sem atvinnuna stunda.

Það er skiljanlegt, að ýmsir þeirra sjeu tregir til að kosta til slíks ef til vill mörgum tugum þúsunda, ef þeir standa höllum fæti sjálfir, eins og oft vill verða í slíkum atvinnurekstri. Jeg skil vel, að þeir útgerðarmenn, sem sáu fram á gjaldþrot í ár, geti ekki lagt stórfje í markaðstilraunir.

Að öllu þessu athuguðu hygg jeg, að það sje eina ráðið að fara þá leið, sem jeg hefi bent á áður hjer í hv. Alþingi, sem sje að ríkið taki málið í sínar hendur að því er snertir söluna. Þá held jeg líka, að uppræta mætti að miklu leyti þá leppmensku, sem mjer skilst að eigi sjer stað í þessari atvinnugrein. Auðvitað eiga Danir sama rjett til síldveiða og við, og við höfum ekkert yfir því að segja, þótt þeir setji sig hjer niður og reki þennan útveg.

Að síðustu vil jeg lýsa ánægju minni yfir því, að till. þessi kom fram, enda þótt jeg sje ekki ánægður með orðalag hennar, því till. virðist benda á vilja hjá þingmönnum til þess að taka þetta mál nú til alvarlegrar yfirvegunar.