13.02.1926
Neðri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3322)

19. mál, milliþinganefnd um síldveiðilöggjöf

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Aðeins stutt athugasemd út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Jeg skal strax taka það fram, að í till. minni er engin upptalning á því verkefni, sem nefndinni er ætlað að vinna að. Mjer kom fyrst til hugar að tiltaka nánar starfssvið hennar, en við betri athugun sá jeg, að svo margt var þar, sem athuga þurfti, að jeg hvarf frá því. Þesskonar upptalning hefði hvort sem er vafalaust ekki orðið nema lítið eitt af því, sem nefndin þarf að vinna. En nú vill svo vel til, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) er einmitt í sjútvn. og getur því lagfært till., eftir því sem honum finst best við

eiga. Annars misskildi hann mig, þegar hann fór að tala um takmörkun á síldarútflutningi. Jeg sagði aðeins, að fyrir mjer vekti takmörkun á síldveiði til söltunar og útflutnings. Líka gæti komið til orða sjerstakt fyrirkomulag á síldveiði, t. d. hvenær byrjað yrði að veiða síld til söltunar o. s. frv. Þetta og fleira ætti að vera verkefni nefndarinnar.

Um takmörkun á síldveiði alment talaði jeg ekki, því að mjer hefir aldrei komið til hugar takmörkun á síldveiði, sem rekin er fyrir verksmiðjumar, síst á meðan þær eru ekki fleiri.

Þá drap þessi hv. þm. á frv. um einkasölu á síld, sem hann hefir flutt á undanförnum þingum. Inn á það mál ætla jeg ekki að fara nú, því að jeg lít svo á, að einkasölulöggjöf bæti ekkert úr þessum ágöllum. Að menn verði ekki fyrir fjártjóni af síldarsölu, ef slíkt fyrirkomulag kemst á(einkasala), held jeg ekkert hægt að fullyrða um, því að jeg held, að síld geti fallið jafnt fyrir því.

Þá mintist hann á veiði útlendinga hjer og gat þess, að við gætum ekki meinað Dönum að veiða hjer. Þetta er satt. En mjer finst við geta hagað löggjöf okkar þannig, að sett verði skilyrði um, að til þess að öðlast þessi rjettindi þurfi að vera búið að eiga hjer heima nokkuð lengi áður.