13.02.1926
Neðri deild: 6. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

19. mál, milliþinganefnd um síldveiðilöggjöf

Björn Líndal:

Mjer er ljúft að þakka hv. flm. till. (JörB) fyrir áhuga hans á þessu máli.

En jafnframt vil jeg taka það fram, að jeg held, að hv. þm. hafi fæstir kynt sjer þetta mál til hlítar og geti því ekki gert sjer í hugarlund, hversu erfitt það er viðfangs, þegar alls er gætt. Það er mín skoðun, að eina ráðið til þess að bæta úr þeim stóru misfellum, sem nú eru á síldarversluninni, sje það að auka markaðinn fyrir síldina, og það er mín sannfæring, að það megi vel takast, ef unnið er að því með einbeitni og áhuga, og þó jafnframt með forsjá og fyrirhyggju. En það efast jeg mjög um, að ríkiseinkasala sje líklegasta leiðin til þess að bjarga úr þeim ógöngum, sem í er komið.

Hitt er rjett, að of seint er hafist handa til þess að bæta markaðinn, og það er mín skoðun, að þing og stjórn eigi nú þegar að hefjast alvarlega handa og leggja fram bæði fje og krafta, svo um muni, til þess að gera alvarlegar tilraunir til markaðsleitar og jafnframt rannsókna á því, hvernig verka skuli síldina til þess að gera hana sem útgengilegasta meðal þjóða, sem hingað til hafa lítil eða engin kynni af henni haft.