28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3339)

105. mál, kaup á jörðinni Hlíðarenda í Fljótshlíð

Hákon Kristófersson:

Því skal ekki mótmælt af mjer, að jörð þessi sje frægur sögustaður, en hinu mun ekki heldur hægt að neita, að margar jarðir megi finna á landi voru, sem geta talist það líka. En það, sem mjer virðist einkennilegast við till. þessa, er það, að eftir henni sýnist mjer, að stjórninni væri ekki heimilt að kaupa jörð þessa fyrir neðan 12 þús. kr. Þó jeg geti búist við, að þingið eigi ef til vill eftir að bæta því við sitt frægðarorð að ganga inn á þessa, að mínu áliti, vanhugsuðu till., þá vil jeg fyrir mitt leyti ekki eiga þar hlut að máli. Mjer kemur það allundarlega fyrir sjónir, að jörðin skuli eiga að vera svona dýr, þegar ekki eru einu sinni svo góð húsakynni þar, að hægt sje að hýsa 6 menn, eins og á aumustu kotbæjum. Jeg vil því leyfa mjer að leggja til, að till. þessari verði vísað til nefndar, t. d. fjhn. eða landbn. En í hvaða nefnd sem hún verður sett, þá treysti jeg því, ef hún á að ganga fram, að kaupverð jarðarinnar verði ekki bundið við neina ákveðna tölu, því jeg er viss um, að verð það, sem nefnt er í till., er helmingi of hátt, því að hv. flm. (KlJ) hefir sjálfur lýst því yfir, að helmingur jarðarinnar hafi nýlega verið keyptur fyrir 3000 kr. (KlJ: Það hefir verið bygt hús á jörðinni síðan). Það getur vel verið. En það hús getur varla verið merkilegt eða mikils virði, úr því ekki er hægt að skjóta þar inn 6–7 mönnum yfir eina nótt eða svo. Það sanna í þessu máli er, að jeg hygg, að jörðin sje ekki í sem bestri ábúð, auk þess sem hún, eins og áður hefir verið upplýst í sambandi við annað mál, liggur undir afarmiklum skemdum af vatnaágangi. Það mun því sanni næst, að eiganda jarðarinnar muni mest þökk í sölunni. Enda slíkt ekki ósennilegt, þegar þess er gætt, hve ógurlegt söluverðið á að vera. Nái till. fram að ganga, mun stofnað til þess fordæmis, sem ekki er gott að vita, hver eftirköst hefir.