06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

112. mál, húsmæðraskóli að Hallormsstað

Ingvar Pálmason:

Mjer kemur það einkennilega fyrir, að hæstv. atvrh. (MG) leggur heldur á móti þessari till. og telur ýms vandkvæði á að sinna málinu. Jeg get búist við, að það stafi að einhverju leyti af því, að stjórnin álíti, að þessi hugmynd sje ný, að hún hafi sprottið upp núna hjer í þinginu. En hugmyndin er a. m. k. 30 ára gömul, og getur hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) staðfest það. Til er sjóður þar eystra, sem heitir kvennaskólasjóður. Jeg er honum að vísu ekki kunnugur, en aðalstuðningsmenn þess sjóðs munu hafa verið þeir Ari Brynjólfsson frá Þverhamri og Jónas Eiríksson á Eiðum. Um eitt skeið lögðu báðar Múlasýslur fje í þennan sjóð. Mjer finst, að viðeigandi hefði verið af stjórninni að taka vel í málið, kynna sjer það og athuga aðstöðu frú Sigrúnar Blöndal til málsins, afla sjer upplýsinga um sjóðinn o. s. frv.

Jeg veit, að það eru engar ýkjur hjá hv. 3. landsk. (JJ), að Austfirðingar horfi til Hallormsstaðar sem fegursta bletts á Austfjörðum og beri þá þrá í brjósti, að þar megi rísa upp mentasetur fyrir Austurland. Mjer finst sanngjarnt að ætlast til þess af stjórninni, að hún tjái sig fúsa til þess að vinna fyrir þetta mál. Þessi kona, sem um er að ræða að reyna að leita samkomulags við, heldur nú uppi einkaskóla í Mjóanesi ásamt manni sínum, og hafa þau hjón bæði sýnt mikinn áhuga á að breiða út þekkingu meðal ungmenna umhverfis bústað sinn. Þingið hefir áður veitt og veitir enn þessari konu styrk til að halda uppi kenslu í handavinnu, og hafa legið fyrir þinginu skýrslur um, hvernig því fje hefir verið varið.

Jeg vænti þess, að deildin taki þessari þáltill. vinsamlega, og stjórnin sjái sjer fært að verða við þeim tilmælum, sem í henni felast, en þar er ekki farið fram á annað en að hún kynni sjer horfurnar fyrir því, að komið verði upp einkaskóla á Hallormsstað. Jeg er samþ. till. hv. 1. landsk. (SE) um að vísa þessu máli til mentmn. Ætti að vera nægur tími til að athuga það þar. Jeg hefi svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Vildi aðeins gefa þessar upplýsingar, af því að mjer fanst kenna nokkurs ókunnugleika til þessa kvennaskólamáls hjá hæstv. atvrh. (MG).