06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

112. mál, húsmæðraskóli að Hallormsstað

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er að nokkru leyti búið að skýra sumt, sem jeg hefði þurft að taka fram. Hæstv. atvrh. (MG) tók málinu að sumu leyti heldur treglega. Það er alveg óþarfi að kvíða fyrir skaðabótamáli. Hæstv. ráðh. hlýtur að sjá, að slíkt getur ekki komið til greina. Það er alt öðru máli að gegna, þó samþ. væri í Nd. að veita konu nokkrar bætur vegna Staðarfells, því þar var um samning að ræða og mjög ólík aðstaða.

Jeg býst við, að hjer geti verið um ýmsa erfiðleika að ræða, en ef þing og stjórn vildi styðja málið á þann hátt, að frú Sigrún sæi sjer fært að ráðast í framkvæmdir, þá væri grundvöllurinn fenginn. Það ætti ekki að þurfa margbrotna samninga til þess að koma í veg fyrir ágreining, þó vegir skildu síðar. En jeg geri ráð fyrir, að þó þetta væri einkaskóli í byrjun, yrði hann með tímanum ríkisskóli. Hæstv. atvrh. mintist á lög frá 1917 um húsmæðraskóla á Akureyri. Því máli hefir ekki verið haldið mikið vakandi, hvorki af konum á Akureyri nje af Alþingi. Jeg gerði tilraun til að lífga það hjer á dögunum, en sú till. var drepin. Sú skólahreyfing virðist stönsuð í bili og getur því varla talist öðrum skólum til fyrirstöðu, meðan hún er ekki vakin upp aftur.

Jeg held, að enginn meiningamunur sje á milli hv. 4. landsk. (IHB) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) á þessu stigi málsins, sem geri neitt til. Jeg hugsa mjer þennan skóla sem húsmæðraskóla, er sje miðaður við þarfir þær, er konur hafa til sjermentunar. Auðvitað verður altaf að fylgja einhver almenn fræðsla, og hjer vill svo vel til, að maður frú Sigrúnar er ágætur kennari og gæti vafalaust styrkt skólann með því að kenna þar almennar fræðigreinir, og jafnvel sjergreinir, svo sem efnafræði. Það hefir verið tekið fram af öðrum, að þau hjón reka nú skóla í Mjóanesi, og er aðsókn að þeim skóla mikil, enda eru hjónin í miklu áliti. Það sýnir áhuga þeirra hjóna, að þau halda þessum skóla uppi án nokkurs styrks, og er sú fórnfýsi nálega einsdæmi hjer á landi. Það er áreiðanlegt, að hæstv. atvrh. þarf ekki að óttast skaðabótakröfur frá þessum hjónum. Verk þeirra sýna það.

Jeg hefði getað felt mig við till. hv. 1. landsk. (SE), um að vísa málinu til nefndar, ef það hefði verið fyr á ferð. En jeg held, að ekki sje veruleg ástæða til þess, enda höfum við tveir úr mentmn., hv. 4. landsk. (IHB) og jeg, haft ástæðu til að lýsa góðu áliti á væntanlegri forstöðukonu, og það er full ástæða til að halda, að þriðji maðurinn í nefndinni (Jóh.Jóh) sje á sama máli.