11.03.1926
Neðri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

13. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg get verið fáorður. Þetta mál er hv. deild kunnugt frá fyrri þingum. Sný jeg mjer fyrst að þeim brtt., sem fram eru komnar við frv. Frv. það, sem hæstv. stjórn lagði fyrir þingið, var að mestu samhljóða frv. því, er háttv. þm. Dal. (BJ) flutti á síðasta þingi. Við frv. hefir hv. Ed. gert eina allmikilsverða breytingu. Komu þar fram aðeins tvær brtt. Var önnur aðallega orðabreyting, en hin var í þá átt, að löggiltum endurskoðendum er bannað að reka atvinnu, er ráðherra telur ósamrýmanlega endurskoðunarstarfinu.

Allshn. athugaði frv. eins og það kom frá hv. Ed. og hefir gert 3 brtt. við það. 2 við 2. og 8. gr. frv., sem ganga í þá átt að hafa ákveðnara orðalag. En hin 3. er efnisbreyting um það, að í stað þess, að nú stendur í frv. að dómstólarnir skuli snúa sjer til hinna löggiltu endurskoðenda, þegar þeir vilja fá röksamlega endurskoðun, komi, að þeir skuli að jafnaði gera það. Hefir nefndin þannig rýmkað orðalagið. Með þessu hefir nefndin viljað tryggja það, að löggiltir endurskoðendur yrðu ekki bendlaðir við fyrirtæki, sem ósamrýmanleg væru stöðu þeirra.

Þetta, ásamt brtt. allshn. hv. Ed., að löggiltir endurskoðendur megi ekki reka atvinnu, er sje ósamrýmanleg stöðu þeirra, gerir frv. aðgengilegra þeim, sem voru á móti því í fyrra. Það var þá samþykt í þessari hv. deild, en dagaði uppi í hv. Ed., vegna þess hve áliðið var þingtímans. En nú hefir orðið stefnubreyting í þinginu í þessu máli, því að nú var það samþykt í hv. Ed. með 12 shlj. atkv. Fjölyrði jeg svo ekki meira um þetta og vona, að frv. verði samþykt.