11.03.1926
Neðri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

13. mál, löggiltir endurskoðendur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þessar brtt. hv. allshn. eru ekki þess eðlis, að ástæða sje að berjast á móti þeim. Jeg hafði búist við, að sett yrði reglugerð samkv. 2. gr. frv., þótt ekki sje það tekið fram í frv. eins og það kom frá stjórninni, að skylt. sje að gera það.

Hvað snertir 3. brtt., þá er þar aðeins um hliðstæðu að ræða við 1. brtt., þar sem sett er „tiltekur“ í staðinn fyrir „getur tiltekið“, og sje jeg ekki ástæðu til að vera á móti því. 2. brtt. er jeg heldur ekki á móti, þótt sagt sje, að „að jafnaði skuli vera löggiltir endurskoðendur til taks.“ Enda var gengið út frá því í stjfrv., að aðeins skyldi nota þá, þegar til næðist. Eru þetta svo litlar breytingar, að jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja um þær. En geta vil jeg þess í sambandi við það sem hv. frsm. nefndarinnar sagði að engin stefnubreyting hefir átt sjer stað í þinginu um þetta mál. Frv. dagaði uppi í hv. Ed. af því, að svo áliðið var þingtímans. Það var til 2. umr. þá síðasta dag þingsins. Vissi jeg ekki til þess, að nein mótrödd heyrðist.

Jeg skildi hv. 2. þm. Reykv. (JBald) svo að hann ætli ekki að setja sig á móti þessu frv., þótt hann hafi skrifað undir nál. með fyrirvara, enda hefir hv. nefnd tekið tillit til afstöðu hans.