08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

Málshöfðun gegn þingmanni

forseti (BSv):

Eins og hv. þdm. muna, lýsti hæstv. fjrh. (JÞ) því á fundi fyrir nokkrum dögum, að hann myndi beiðast, leyfis deildarinnar til þess að mega lögsækja hv. þm. Str., Tryggva Þórhallsson, fyrir ummæli, sem þingmaðurinn hafði haft um hann og ráðherra taldi meiðandi fyrir sig1). Hefir hæstv. ráðherra nú skrifað mjer brjef um þetta, sem jeg leyfi mjer að lesa upp fyrir hv. deild:

„Alþingi, 8. maí 1926.

Á þingfundi háttvirtrar neðri deildar Alþingis hinn 27. f. m. bar þingmaður Strandamanna, hr. Tryggvi. Þórhallsson, fram meiðandi aðdróttanir til mín í þingræðu um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ákveða einkasölu á tilbúnum áburði. Þau ummæli þingmannsins, sem jeg tel sjerstaklega meiðandi fyrir mig, eru þessi, eftir handriti þingskrifaranna:

„Það er upphaf þessa máls, að áður en núverandi landsverkfræðingur tók við embætti sínu var hjer annar maður landsverkfræðingur um alllangan tíma. En áður en hann hætti, setti hann upp stóra verslun og verslaði með þau efni, er þarf til bryggju- og brúargerða, t. d. sement, járnpípur o. fl. Jeg vil nú spyrja hæstv. atvrh. (MG): Mun þessi maður hafa byrjað að versla eftir að hann varð landsverkfræðingur? Gæti mönnum ekki dottið í hug, að hann hefði byrjað að versla meðan hann gegndi embættinu, þar sem hann setur upp stóra verslun er hann hættir? Ef hann hefir þá rekið verslun, vil jeg spyrja: Var það heppilegt? Var það heppilegt, að hann verslaði þannig við sjálfan sig, þar sem hann annaðist allar verklegar framkvæmdir og kaup, sem heyrðu undir það opinbera? Og ef um ágóða hefir verið að ræða, var þá heilbrigt að reka slíka verslun?“

Nálægt því síðasta í ræðunni segir þingmaðurinn ennfremur, sömuleiðis eftir handriti þingskrifaranna:

„Jeg spyr því, hvort það hafi átt sjer stað, þegar núverandi hæstv. fjrh (JÞ) var landsverkfræðingur, að hann þá hafi verslað við sjálfan sig f. h. ríkissjóðs, eða hvort hann nú versli við firmað Jón Þorláksson og Norðmann, þegar hann er orðinn fjrh., fyrir hönd fjármálaráðuneytisins“.

Jeg tel, að í hinum tilvitnuðu ummælum felist aðdróttanir til mín um það, að jeg hafi, meðan jeg var landsverkfræðingur (en það var jeg frá 1. febr. 1905 til 1. febr. 1917), misbrúkað stöðu mína til óleyfilegra hagsmuna fyrir sjálfan mig, með því að gerast verslunarmilliliður í hagnaðarskyni milli seljenda efnis til opinberra verka, er jeg veitti forstöðu, og landssjóðsins. Og með því að jeg vil ekki liggja undir því ámæli, að jeg hafi framið slíkt afbrot, er varðar þungri refsingu samkvæmt hinum almennu hegningarlögum, leyfi jeg mjer að beiðast leyfis hinnar háttvirtu þingdeildar til þess að mega lögsækja þingdeildarmanninn Tryggva Þórhallsson fyrir meiðandi aðdróttanir hans í framangreindum ræðuköflum. Jafnframt leyfi jeg mjer að beiðast þess, að þjer, hæstvirti forseti, takið þessa beiðni mína á dagskrá þingdeildarinnar sem fyrst.

Virðingarfyllst

Jón Þorláksson,

alþm., fyrv. landsverkfræðingur.

Til forseta Nd. Alþingis.“

1) Sbr. ræðu fjármálaráðherra (JÞ) við 3. umr. um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ákveða einkasölu á tilbúnum áburði, C. 125–126