10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (3391)

Málshöfðun gegn þingmanni

Sveinn Ólafsson:

Fyrir mitt leyti vildi jeg helst óska þess, að hæstv. fjrh. fjelli frá þessari ósk sinni um leyfi deildarinnar til málshöfðunar, vegna þess, að honum hefir verið boðið af háttv. þm. Str. að endurtaka ummæli þau utan deildarinnar, sem hæstv. ráðh. telur móðgandi fyrir sig. Það virðist því allsendis óþarft að ónáða deildina með atkvgr. um þetta mál.

Í till. háttv. þm. Str., sem hann hefir beint til hv. deildar, liggur áskorun til þingsins um að veita þetta leyfi, og jafnframt einskonar upphvatning um að fara þessa leið eftirleiðis, þegar líkt stendur á. Annars finst mjer ófyrirsynju vera farið fram á þetta málshöfðunarleyfi við deildina, úr því að hv. þm. Str. hefir boðist til þess að endurtaka ummæli sín utan deildarinnar. Það er sannarlega óviðfeldið að þurfa að taka fyrir á Alþingi svona mál, og sjerstaklega þegar engin nauðsyn krefur.

Jeg hefi einu sinni áður verið við atkvgr. um slíkt mál og þetta, og jeg skal láta þess getið, að jeg greiddi atkv. móti leyfisveitingunni. Jeg mundi gera það eins nú, ef ekki stæði svo á, að háttv. þm. Str. leggur svo mikla áherslu á, að leyfið verði veitt. Jeg get virt þá beiðni hans og gert það fyrir hann að styðja hana, en óviðfeldið þykir mjer að fara með leyfi til málshöfðunar inn á Alþingi.

Annars sje jeg, satt að segja, ekki í þessum ummælum hv. þm. Str. um hæstv. fjrh. nokkurt frekara tilefni til móðgunar en í svo mörgum öðrum orðahnippingum, sem hjer hafa orðið fyr og síðar í deildinni, og finst mjer hæstv. ráðherra vera í þessu nokkuð hörundssár.

Það er ekki langt síðan mál var höfðað hjer í bæ út af skopyrðum í blaði einu, sem voru á þann veg, að sækjandi var nefndur „íturmennið prúða“. Fór það svo, ef mig minnir rjett, að viðkomandi ritstjóri fjekk harðan sektardóm. En ef nú á að leika svipaðan skollaleik hjer, þá virðist mjer illa fara á því, að Alþingi eigi nokkurn þátt í honum með málshöfðunarleyfi.