10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (3399)

Málshöfðun gegn þingmanni

Sveinn Ólafsson:

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hefir nú tekið upp mest af því, sem jeg ætlaði að segja. En jeg vil samt víkja þeirri spurningu til hæstv. fjrh. aftur, hvort hann vilji ekki falla frá ósk sinni og nota tilboðið, sem honum var gert í öndverðu, að endurtaka ummælin utan þings. Það hefði auðvitað verið það besta. Og jeg er viss um það, að með því móti verður vegur hans mestur. Engum gerir hann þægt verk með því að heimta atkv., og það hygg jeg gilda eins um hans flokksmenn sem aðra.

Hæstv. fjrh. vjek síðast í ræðu sinni að því opinbera lífi í landinu og afleiðingum þess að láta slíkt mál sem þetta niður falla óátalið, eða leggja það undir dóm almennings, sem hneykslast myndi á því. Hjer held jeg, að ekki sje miklu fyrir að fara um álit almennings á velsæmi þeirra, sem með völd fara, og ef ætti að taka eitthvað til samanburðar þessu velsæmi, eitthvað, sem nýlega hefir skeð þessu líkt í þingsögunni, þá dettur mjer í hug afgreiðsla þál. í Ed. um málshöfðun gegn höfundi að ósvífnum meiðyrðum um æðstu embættismenn landsins, sem deildin vísaði frá með rökstuddri dagskrá og þeirri hlálegu yfirvarpsástæðu, að af því að tiltekinn maður hefði ekki höfðað mál til að bera af sjer svipuð meiðyrði, þá væri ekki ástæða fyrir embættismenn ríkisins að gera það heldur. Þess vegna álít jeg, að hjer sje ekki neitt sjerlega hvítt að velkja um það opinbera líf, þó að þessum „seremonium“ öllum væri slept, þetta atriði látið niður falla og deildin þannig losuð við að greiða atkvæði um þá hluti, sem henni er ógeðfelt að skifta sjer af og engin ástæða er til að sinna.