10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (3400)

Málshöfðun gegn þingmanni

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það getur vel verið svo, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þyki það óþarfi fyrir fyrv. opinberan starfsmann ríkisins að bera slíkar aðdróttanir af sjer og hjer er um að ræða, en jeg verð að hafa aðra skoðun á því, og jeg tel þetta ekki óþarft. Viðvíkjandi því, hvernig jeg hafi svarað tilboðinu um, að aðdróttanir þessar gegn mjer yrðu endurteknar utan þings, skal jeg fúslega viðurkenna það, að jeg svaraði því með nokkuð hvatskeytlegum orðum, sem stafaði af því, að jeg hafði skift skapi, vegna þessara aðdróttana, sem jeg hafði ekki gefið nokkurt tilefni til og mjer var flutt að bornar hefðu verið á mig. En jeg get aftur lýst því yfir hjer, að jeg óska ekki eftir, að slíkar aðdróttanir verði endurteknar utan þings, hvorki um mig eða aðra, enda hefi jeg enga tryggingu fyrir því, að þessi orð verði endurtekin óbreytt, þó að þetta sje boðið.