10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

Málshöfðun gegn þingmanni

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer er skylt að geta þess, út af ræðu hv. þm. N.-Þ. (BSv), að jeg hefi fyrir mjer handrit af ræðu háttv. þm. Str., sem er leiðrjett af honum sjálfum; en því er svo varið, að þeir kaflar ræðunnar, sem jeg tel meiðandi fyrir mig, eru strikaðir út af háttv. þm. sjálfum og hefir hann skrifað þar inn alt annað mál í staðinn. (TrÞ: Hvernig er það alt annað mál?). Vegna þess, að það er fátt sameiginlegt í því, sem út er strikað, og hinu, sem ritað er í staðinn, þótt um svipað efni sje hvorttveggja. Jeg hefði ekki þóst hafa tilefni til málshöfðunar, ef ræðan hefði verið eins og háttv. þm. (TrÞ) hefir skrifað hann því að þar tekur hann allar aðdróttanir í minn garð aftur, sem stóðu í handriti skrifaranna. Jeg vil vekja athygli háttv. deildar á því, að þetta, getur ekki verið næg ástæða til að neita mjer um heimild til að lögsækja hv. þm.; neiti hann að hafa haft í frammi þessi orð um mig, hvílir sönnunarskyldan á mjer, og geti jeg ekki sannað þau, sleppur hann ódæmdur.