10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (3405)

Málshöfðun gegn þingmanni

Halldór Stefánsson:

Jeg vil lýsa því, að jeg fæ ekki skilið, að þetta mál sje hjer raunverulega á dagskrá. Hæstv. forseti (BSv) ljet þess getið, að hann tæki þetta mál á dagskrá morgundagsins, en nú hefir málið þegar verið allmjög rætt og alment, og að því er mjer virðist utan dagskrár; ennfremur virðist mjer enn vanta úrskurð hæstv. forseta um, hvað skuli hjer bera upp til atkvæða, till. hv. þm. Str. eða beiðni hæstv. fjrh. Mjer er því alls ekki ljóst, hvað það er, sem menn ætla að fara að ganga til atkvæða um. En sje málið alment tekið til meðferðar nú þegar, liggur í augum uppi, að það verður að skera úr því, hvað á að bera upp til atkvæða.

Viðvíkjandi beiðni hæstv. fjrh. vil jeg taka það fram, að mjer virðist ekki vera nauðsynlegt, að hún verði tekin hjer til greina, til þess að hæstv. ráðh. geti lögsótt háttv. þm. Str., þar sem boðið hefir verið að endurtaka þau orð, sem um er deilt, utan þinghelginnar. Auk þess tel jeg varhugavert, sem einnig hefir þegar verið bent á í þessum umræðum, að það, sem hæstv. fjrh. fer fram á, felur það í sjer, að þingmenn verði sviftir þeim rjetti, sem þeir nú hafa til þess að leiðrjetta ræður sínar, og beiðni hæstv. ráðherra er beinlínis bygð á því, að þingmenn hafi ekki lengur þennan rjett. Af þessum ástæðum verð jeg að vera á móti því, að þetta málshöfðunarleyfi verði veitt.