10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

Málshöfðun gegn þingmanni

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af ræðu háttv. þm. Barð. (HK) vil jeg taka það fram, að jeg hefi ætíð verið mjög sáttfús, og það verður líka í fyrsta skifti á ævi minni, ef það verður úr, að jeg höfði mál á hendur háttv. þm. Str.

Viðvíkjandi spurningu hv. þm. Barð. um það, hvort jeg mundi vilja láta þetta mál niður falla, ef háttv. þm. Str. tæki orð sín aftur, vil jeg aðeins segja það, að jeg hefi tekið vel eftir því, hvað háttv. þm. Str. hefir sagt um þetta tvisvar sinnum. Hann hefir í bæði skiftin sagt, að hann hefði engar aðdróttanir komið með, hann hefði aðeins borið fram spurningar. Jeg hefi nú einmitt orðið að álíta, að í spurningum hans fælust aðdróttanir til mín, en vilji hv. þm. Str. nú lýsa því yfir hjer í deildinni, að í spurningum hans hafi engar aðdróttanir átt að felast í minn garð, þá mun jeg telja, að nokkuð öðru máli sje að gegna þar á eftir.