18.03.1926
Efri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

13. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. (Eggert Pálsson):

Þess er getið í framhaldsnál. allshn., að frv. það, sem hjer liggur fyrir og komið er frá háttv. Nd., hafi tekið nokkrum breytingum, en þær breytingar eru svo smávægilegar, að ekki er ástæða til þeirra vegna, að senda frv. til hv. Nd. aftur. Ef hv. þdm. hafa fyrir sjer þskj. 40 og 131. geta þeir athugað þessar breytingar. Í 2. tölulið 2. gr. stóð í. frv., þegar það fór hjeðan: „Hann (löggiltur endurskoðandi) skal sanna fyrir ráðuneytinu eða fyrir nefnd, sem atvinnumálaráðherra skipar, að hann hafi þá þekkingu á viðskiftum og reikningshaldi, sem krafist verður í reglugerð sem ráðherra getur sett.“ Þessu „getur sett“ hefir hv. Nd. breytt í „setur“. Önnur breyting er við 5. gr. Í frv. stóð: „Vilji dómstólar hafa röksamlega endurskoðun á reikningum og rekstri fyrirtækja eða á þrotabúum, skal til þeirrar skoðunar hafa löggilta endurskoðendur, ef til næst.“ Nd. vill orða þetta svo: „skal að jafnaði hafa til þeirrar skoðunar löggilta endurskoðendur, ef til næst.“ Þá hefir Nd. einnig breytt lítilsháttar 8. gr. frv. Í byrjun 8. gr. stóð: „Atvinnumálaráðherra getur tiltekið“ o. s. frv., og því hefir Nd. breytt í: „atvinnumálaráðherra tiltekur,“

Eins og hv. þdm. sjá, eru þessar breytingar svo smávægilegar, að þær ættu ekki að verða því til fyrirstöðu, að frv. verði samþ. eins og það er nú.