08.02.1926
Efri deild: 1. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

Kosning forseta og skrifara

Forseti (HSteins):

Jeg þakka háttv. þm. þann heiður, sem þeir hafa sýnt mjer með því að kjósa mig enn á ný forseta þessarar háttv. deildar. Mun jeg gera alt, sem jeg megna, til þess að samvinna milli mín og háttv. deildarmanna verði jafngóð á þessu þingi og hún hefir jafnan verið áður í þessari háttv. deild.

Vjer í þessari deild eigum nú á bak að sjá tveimur mikilsmetnum þm., þeim 2. og 3. landsk. þm., Sigurði Jónssyni og Hirti Snorrasyni, en þar eð þeirra hefir nú í dag þegar verið minst í sameinuðu þingi, tel jeg óþarft að endurtaka það hjer. Jeg vil aðeins taka það fram, að við, sem hjer höfum áður starfað með þessum þm. í þessari háttv. deild, kennum allir mikils saknaðar við fráfall þeirra. En svo vel hefir þó tekist til; að tveir góðir og þjóðkunnir athafnamenn, sem vænta má af að leggi drjúgan skerf til góðra þingstarfa í deildinni, hafa valist í hin auðu sæti, og býð jeg þá hjer með velkomna í okkar hóp og vænti þess, að þeir kunni vel við sig í andrúmslofti þessarar háttv. deildar.