12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

14. mál, áveita á Flóann

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vildi gjarnan láta fylgja þessu frv. fáein orð, sem jeg beini þá til landbn. og hæstv. atvrh. (MG). Í frv. segir, að landsstjórninni sje heimilt að gera þetta og þetta. Landsstjórninni heimilast að láta gera mannvirki, henni heimilast að semja um það, skipa nefnd til að gera tillögur um mannvirkið og ennfremur að kveðja til sjerfræðinga eftir því, sem nauðsynlegt er. Það sjest af aths. við frv., hvað átt er við, að nefndin og sjerfræðingarnir geri. Þeir eiga að athuga það, sem kallað er órannsakað mál, hvernig koma eigi mjólkinni í peninga, stofna mjólkurbú o. s. frv., og yfirleitt gera tillögur um, hvernig eigi að láta fyrirtækið bera sig.

Nú liggur beint við að bera ákvæði þessa frv. saman við jarðræktarlögin frá 1923. Í 2. gr. jarðræktarlaganna stendur, að Búnaðarfjelag Íslands hafi á hendi framkvæmd eða umsjón með framkvæmd þeirra ræktunarmála, sem lán eða styrkur er veittur til úr ríkissjóði, og í 3. gr. sömu laga stendur, að atvinnumálaráðuneytið skuli jafnan leita álits Búnaðarfjelagsins um ræktunarmálefni, og er þar meira að segja kveðið svo fast að orði, að ekki megi veita lán eða styrk til slíkra fyrirtækja, ef stjórn Búnaðarfjelagsins leggur á móti því. Ennfremur stendur í 4. gr. sömu laga, að Búnaðarfjelagið hafi á hendi umsjón með viðhaldi þeirra ræktunarfyrirtækja, er styrkur eða lán hefir verið veitt til úr sjóðum þeim eða stofnunum, sem um getur í 2. og 3. gr.

Á þetta er ekkert minst í frv. því, sem hjer liggur fyrir. Jeg vildi vekja athygli á því, að hjer virðist vera um tvær ólíkar stefnur að ræða. Þetta frv. hefir alls ekki verið borið undir Búnaðarfjelag Íslands. Jeg er þeirri stefnu, sem kemur fram í þessu frv., algerlega andvígur; jeg stend á grundvelli jarðræktarlaganna.

Í þessu máli eru tvö aðalatriði. Hið fyrra er, hvernig eigi að gera áveituna arðvænlega. Í þessu er eðlilegast að snúa sjer til Búnaðarfjelags Íslands, því að það hefir á sínum vegum sjerfræðinga í þeirri grein, sem ríkið leggur til mikið fje, og því finst mjer óeðlilegt að ganga framhjá þeim og slíta þetta út úr öðrum búnaðarmálum. Þessu vil jeg beina til hæstv. atvrh. (MG), sem á sínum tíma átti nokkurn þátt í því að semja jarðræktarlögin.

Í þessu sambandi skal jeg víkja að öðru, sem er þessu nátengt. Þegar Skeiðaáveitan var framkvæmd, var algerlega gengið framhjá „fag“-þekkingu Búnaðarfjelags Íslands, eins og nú á að gera með Flóaáveituna. Þetta hafði sínar alvarlegu afleiðingar fyrir bændur á Skeiðum, og mun vafalaust hafa sömu afleiðingar fyrir bændur í Flóanum.

Jeg vildi með þessum fáu athugasemdum benda á það, að hjer er um tvær mismunandi stefnur að ræða, og vildi stinga því að hæstv. atvrh. og hv. landbn., hvort ekki væri hægt að byggja brú á milli.