11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (3480)

99. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Af því að þetta frv. snertir tekjur ríkissjóðs allmikið, þykir mjer rjett að gera grein fyrir afstöðu minni til þess, svo sem jeg gerði í hv. Nd. Eins og um hefir verið getið, hefir þetta frv., ef samþ. verður, hálfrar miljónar króna tekjumissi í för með sjer fyrir ríkissjóð. — Það var nú gengið að því vísu af öllum, að þegar búið væri að greiða lausar skuldir ríkjssjóðs, yrðu gerðar linanir á hinum ákaflega þungu sköttum. Jafnframt gerðu víst flestir ráð fyrir því, að verklegar framkvæmdir yrðu auknar. Nú stendur til að auka verklegar framkvæmdir ákaflega mikið samkv. þeim fjárlögum, sem þingið hefir samþykt fyrir árið 1927, jafnvel meira en menn höfðu gert sjer vonir um. Hinsvegar hafa ekki komið aðrar linanir á sköttum en að gengisviðaukinn hefir verið afnuminn af vörutollinum, en er látinn halda sjer á öðrum sviðum. Jafnframt hefir verðtollurinn verið lækkaður nokkuð, en lög um það ganga ekki í gildi fyr en um næstu áramót. Jeg get ekki annað en viðurkent, að skattabyrðin er allþung og þó helst við sjóinn. Þar er hún svo mikil, að ef fært er að veita nokkrar linanir, verður að gera það. Jeg held, að einsdæmi sje að hafa annan eins kolatoll og hjer er nú. Víðast mun hann ekki vera til. Hjer er farið fram á að lækka hann, svo að hann verði sambærilegur öðrum vörutolli. Eftir þessu frv. verður kolatollurinn 2–3%, miðað við verð. — Jeg tel ekki, að þetta frv. hafi í för með sjer neina hættu fyrir fjárhag ríkissjóðs á yfirstandandi ári, þótt hann verði afnuminn hálft árið. En jeg er ekki viss um, að ríkissjóður megi missa hann árið 1927. Því vil jeg lýsa yfir því, að verði ilt útlit um næstu áramót, mun jeg telja mjer skylt að bera fram á næsta þingi frv. um einhvern annan tekjuauka í stað þessa. Vænti jeg þess, að hið háa Alþingi liðsinni mjer í því.