08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í C-deild Alþingistíðinda. (3483)

81. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Mjer þykir merkilegt, að undirtektirnar undir dagskrá hv. þm. N.-Þ. (BSv) skuli vera eins og nú er raun á orðin. Það er enginn vafi, að hjer er um stórmál að ræða, sem þjóðin hefir ekki haft tækifæri til að taka ákveðna afstöðu til. En það er fjarri sanni, að málinu sje eytt, þótt því væri vísað frá núna. Ef það er rjett, sem Framsóknarflokkurinn segir, að málið hafi óskorað fylgi þjóðarinnar, þá er ekki að efa, að það muni ganga fram þegar á næsta þingi. Það er því ekki rjett að taka þannig til orða, að málinu sje eytt.

Þeir, sem greiða atkv. gegn dagskránni, telja málið ekki þess vert, að leggja það undir dóm þjóðarinnar eða vilja ekki eiga það á hættu, að hún fái að leggja þar orð í belg.

Það hefir ekki enn heyrst, hvernig Íhaldsflokkurinn eða stjórnin taki í þetta mál. Jeg gat ekki fengið neitt út úr orðum hæstv. fjrh. (JÞ), enda þótt hann segði nú, að ekki væri ástæða til þess að rjúfa þingið. En jeg tel þó engan vafa á því, að stjórnin muni fara að vilja þingsins, ef það lýsti yfir því, að það vildi láta fram fara nýjar kosningar áður en málinu væri ráðið til lykta.

Það er auðvitað, að fylgismenn frv. hafa nóg atkvæðamagn, eins og sýndi sig við 2. umr., til þess að koma málinu fram. En það er ekki þetta, sem jeg vil vekja athygli á, heldur hitt, hvort málið er talið svo mikils varðandi, að þjóðin eigi að segja álit sitt um það. En atkvgr. sker nú úr þessu, og þýðir því ekki að ræða meira um það, enda mun hjer engu verða um þokað.

Skal jeg svo ekki orðlengja meira um þessa dagskrá, en snúa mjer stuttlega að málinu sjálfu. Ætla jeg þá að víkja að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann kvartaði yfir því, að jeg hefði komið með ósvífnar aðdróttanir í garð milliþinganefndarinnar, þar sem jeg sagði, að nefndin hefði lagt málið hlutdrægt fyrir hina útlendu sjerfræðinga. Forseti, hv. þm. N.-Þ. (BSv), svaraði þessu fyrir sitt leyti. En jeg vakti athygli á því, að það væri munur á aðstöðu hans og meiri hl. Hann hefði tekið tillit til þess, hvernig málið var lagt fyrir sjerfræðingana, en meiri hl. ekki.

Þá sagði háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að það hefði ekki aðeins verið send skjöl til þeirra manna, sem leitað var til í þessu efni, heldur hefðu einnig 3 nefndarmenn farið utan og talað við þá um málið, og það hefði líka sína þýðingu í þessu sambandi. Þá sagði háttv. þm. (ÁÁ), að maður skyldi ekki ætla, að hægt væri að villa þaulvönum bankamönnum sýn, enda þótt málið væri lagt hlutdrægt fyrir þá. En það hefir þó sína þýðingu, ef lögð er áhersla á, að hjer sje alment álitið ekki fært að ráðast í að stofna sjerstakan seðlabanka. Það er ekki annað að sjá af umsögn þeirra, en að þeir hafi verið þess fulltrúa, að hjer kæmi ekki annað til mála en annaðhvort að gefa Landsbankanum seðlaútgáfurjettinn eða setja upp einskonar útbýtingarstofnun fyrir seðla. En þó að flokkur manna hjer vilji setja seðlaútgáfuna í samband við veðlánastofnunina, þá hefir það ekki einu sinni verið nefnt á nafn í þessu sambandi. Benti líka háttv. þm. N.-Þ. (BSv) á þetta, og þarf ekki að undirstrika það.

Þá sagði háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að minni hl. bygði ekki álit sitt á íslenskum staðháttum, heldur á þróuninni, eins og hún hefir orðið í öðrum löndum. En þm. á að geta skilið það, að þótt við byggjum á reynslu annara, þá getum við eins fyrir það tekið tillit til ástands viðskiftalífsins hjer heima. Og einmitt það hvetur oss til að hafa seðlaútgáfuna í sjerstökum banka, en ekki í sambandi við viðskiftabanka. — Skilst mjer því, að framsláttur þessi hjá hv. þm. (ÁÁ) sje ekkert annað en útúrsnúningar. Jeg veit ekki, hvort hann hefur verið að gjalda fyrir það, sem jeg sagði um kenningu meiri hl. um þróunina í bankamálunum hjer hjá okkur. Jeg skal líka játa, að mjer finst hún afar spaugileg, og jeg get skilið, að þeir verða snortnir, þegar sýnt er fram á, hve barnalegt slíkt er.

Jeg hefi ekki tilefni til að segja meira um málið nú, og skal skora á þm. að hirða minna um flokkssamtök en það, sem þeir álíta rjettast og best, og greiða dagskránni atkv., svo að þjóðin fái að láta skoðun sína í ljós um málið.