08.05.1926
Sameinað þing: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

34. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá

Sigurður Eggerz:

Mjer er ljóst, að hjer er um mjög merka till. að ræða. Ef það tækist að koma henni í framkvæmd, þá væru tvær flugur slegnar í einu höggi. Fyrst og fremst yrði þá góðum bílvegi komið á alla leið austur í Skaftafellssýslu, er búið væri að brúa Þverá og Markarfljót, því þær ár, sem þá væru eftir óbrúaðar, eru flestar mjög lítilfjörlegar. Og um hitt atriðið er ekki minna vert, ef hægt yrði að bjarga öllu þessu frjóa landi, sem þarna liggur undir áföllum og eyðingu.

Jeg verð að líta svo á, að þetta mál hafi unnið mikið við það að koma fyrir hv. Nd., og á sú hv. þd. miklar þakkir skilið fyrir till. sínar í málinu, enda í sjálfu sjer meiningarlaust að samþykkja fyrri lið till., nema verkinu sje haldið áfram, svo sem hv. Nd. leggur til í viðaukatill. sinni.

Jeg tek undir með hv. þm. N.-Þ. (BSv), að það sje mjög nauðsynlegt, að gerð sje sem rækilegust rannsókn um framkvæmd málsins, svo þingið geti síðar vitað, að hverju það gengur. Það má ekki horfa í fje til undirbúnings slíku máli, svo full vissa geti fengist um það, hversu framkvæmdunum skuli haga. Og jeg vil leggja áherslu á það, að slíkri rannsókn verði hraðað sem mest.

Jeg mun greiða till. eindregið atkvæði mitt.