29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, fjárlög 1927

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. frsm. samgmn. (JAJ) drap á það í ræðu sinni, að yfirleitt væri misbrestasamt með innheimtu skýrslna um flóabátaferðirnar. Jeg veit ekki betur en að það sje föst venja í stjórnarráðinu, að borga ekki út lokafjárveitingu fyr en slíkar skýrslur eru komnar. Jeg veit ekki til þess, að frá þessari reglu hafi nokkurntíma verið vikið; um Lagarfljótsbátinn t. d. var lögð fram skýrsla um ferðir hans, sem gefin var af fjelagi því, sem gerði bátinn út. Hitt er það, að skýrslur þessar eiga ekkert erindi inn á þing, og því hefir ekki verið venja að senda þær þangað.

Um úthlutun styrksins til bátaferðanna vil jeg taka það fram, að jeg tel skylt að fara sem mest eftir till. samgmn. En ef t. d. háttv. samgmn. í Ed. kemur líka með tillögur, sem ekki eru eins og till. háttv. samgmn. í þessari hv. deild, þá er ekki unt að fara eftir hvorumtveggja, og hlýtur þá atvinnumálaráðuneytið að hafa óbundnar hendur um úthlutun styrksins, þó þannig, að sjálfsagt er að fara sem næst að hægt er tillögum þeim, sem háttv. samgöngumálanefndir hafa gert. Út af skýrslu háttv. samgmn. um samgöngur á sjó tek jeg fram, að jeg tel það fullkomlega sýnt, að strandferðunum hefir alls ekki farið aftur; þvert á móti eru þar sýnilegar framfarir.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði fyrir nokkrum dögum í ræðu um þessi mál, að strandferðirnar væru nú mun verri en þegar Austri og Vestri höfðu þær með höndum, og í ræðu sinni nú tekur hann það fram, að feldar hafi verið niður ýmsar hafnir úr ferðaáætlun Esju og henni alls ekki ætlað að koma þar, eða mun sjaldnar en áður. En við þetta er það að athuga, að þetta eru hafnir, sem sjerstakir bátar sigla á, t. d. Hornafjörður, Vík o. fl. Keflavík hefir nú fengið bílveg og vill því heldur nota landflutningaleiðina, enda hafa engar kvartanir borist þaðan yfir strjálum skipaferðum. Þaðan eru líka daglega samgöngur á landi við Reykjavík allan tíma ársins. Annars eru það engar sannanir um afturför, þó að nokkrir viðkomustaðir hafi verið feldir niður; skýrslur samgmn. bera engan vott um hnignun strandferðanna, en þvert á móti er þar um augljósar framfarir að ræða. Styrkurinn til Hornafjarðarbátsins var í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár 8 þús. kr.; samgmn. hafði áætlað 4 þús. kr. til ferða á þessu svæði, en með samþykt brtt. frá háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) var 4 þús. kr. bætt við, sem ákveðið var að færu eingöngu til ferða á Hornafjörð.

Það gleður mig að heyra af ræðu háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að hann hugsar nú meira um hinar minni hafnirnar en áður; á síðasta þingi deildi jeg á hann vegna þess, hve lítið hann vildi hugsa um smáhafnirnar. Hann vildi láta Esju fara sem flestar hraðferðir kringum landið. Nú hefir þessi háttv. þm. sýnilega tekið algerðum sinnaskiftum í því efni. (SvÓ: Þetta er útúrsnúningur). Nei, þegar hv. þm. (SvÓ) í ræðu sinni áðan kvartaði yfir því, að feldir hefðu verið niður ýmsir viðkomustaðir úr áætluninni um ferðir Esju, voru það eingöngu smáhafnirnar, sem hann taldi upp.

Um Selárbrúna ætla jeg ekki að ræða að þessu sinni. Vegamálastjóri mælti með henni að vísu, en tók það fram, að fje því, sem veitt er í fjárlögum 1927, er ekki skift niður eða ráðstafað ennþá.

Háttv. þm. V.-Sk. (JK) ljet á sjer skilja, að jeg mundi hafa gengið út frá, að dráttur yrði á símalínunni milli Víkur og Hornafjarðar. Þetta er rjett, að jeg hefi gengið út frá þessu einmitt vegna þess, að sett var fyrir skömmu loftskeytastöð á Síðunni og ráðgert að setja aðra í ár í Öræfum. Þetta er meiningarlaust, ef símalína á að koma bráðlega. Þetta hljóta allir að játa, því að símalínan gerir loftskeytastöðvarnar óþarfar.

En þótt jeg hafi verið þessarar skoðunar og hún sje rökrjett ályktun af því, sem áður hefir verið gert í þessu máli, þá er fjarri mjer að vilja snúast á móti þessari símalínu. Og þótt jeg geti ekki tekið undir það með hv. þm. V.-Sk., að stjórninni sje skylt að taka upp fjárveitingu til þessa í fjárlagafrv. 1928, þá vil jeg þó taka það fram, að stjórnin mun taka fult tillit til álits hv. fjvn. um þessa símalínu og taka upp fjárveitingu til hennar fyrir 1928, ef ástæður leyfa.

Þessa vildi jeg geta til þess að fyrirbyggja allan misskilning.