12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

14. mál, áveita á Flóann

Magnús Torfason:

Jeg stend upp fyrst og fremst til þess að þakka hæstv. stjórn fyrir að hafa komið fram með þetta frv.; en um leið get jeg skýrt frá því, að undanfarin ár hefir mikið verið rætt og mikið bollalagt um það, hvernig menn ættu að notfæra sjer grasið, sem menn vænta að fá upp úr þessari áveitu. Menn hafa sett niður nefndir til þess að athuga þetta mál. Hafa menn orðið fullkomlega á eitt sáttir um það, að það, sem mest riði hjer á, væri undirbúningurinn, sjerstaklega að undirbúningurinn undir það, að fyrirtækið kæmi að notum, færi í rjetta átt. Og þetta frv. fer rjetta leið, nauðsynlega og óhjákvæmilega.

Eins og þetta frv. er úr garði gert, er það ekki nema eðlilegt áframhald af Flóaáveitulögunum. Jeg hefi eigi orðið þess var, að hæstv. atvrh. sje sjerstaklega sýnt um að ganga fram hjá Búnaðarfjelagi Íslands eða sjerfræðingum þess. Og jeg get ekki skilið 2. gr. frv. þannig, að stjórnin ætli sjer að koma í veg fyrir, að Búnaðarfjelag Íslands geti haft hönd í bagga um þessi mál, og jeg veit með vissu, að það er alls ekki tilgangur hæstv. atvrh. með þessari grein frv. Því er svo varið um þetta mál, að það er einskonar frumburður stórfyrirtækja landbúnaðarins í framtíðinni, og jeg er viss um, að enginn landbúnaðarráðherra getur litið svo á, að ekki sje nauðsynlegt, að Búnaðarfjelag Íslands hafi hönd í bagga, þar sem þessi mál eiga í hlut. En við, sem stöndum í þessum stórræðum, verðum að bera kostnaðinn af þeim, vegna þess að þetta eru reynslufyrirtæki. En þyki 2. gr. frv. eigi nógu skýr í þessu efni, þá veit jeg að hæstv. atvrh. hefði ekki á móti því, að henni yrði eitthvað vikið við til þess að taka af vafa.

Hvað sjálft fyrirtækið snertir, mætti ætla, að þeim, sem eiga að njóta þess, mætti í ljettu rúmi liggja, hverjir stjórnuðu því, ef aðeins stjórn þess væri skipuð góðum og þar til hæfum mönnum. Aðalatriðið er, að allur undirbúningur fyrirtækisins sje sem bestur og vandaðastur, og jeg þykist sjá, að hæstv. atvrh. ætlar ekki að láta þar standa á smámunum.

Jeg vil taka undir með hv. þm. Str. (TrÞ) að það þyrfti að kenna íbúunum á áveitusvæðunum, hvernig þeir ættu að stunda sína atvinnu. Jeg vil undirstrika þessi orð. Menn hafa austur þar síður en annarsstaðar fengið færi á að læra að sinna sínum atvinnurekstri; í þessum stóra landbúnaðarfjórðungi (austanfjalls) hafa menn aldrei mátt fá einn eyri til búnaðarkenslu.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fetti fingur út í það, að ekki væri í frv. talað um, í hvaða hlutföllum kostnaðurinn skyldi greiddur af þeim framkvæmdum, sem gerðar yrðu. Jeg les frv. eins og það sje viðauki við Flóaáveitulögin og gildi því hin sömu hlutföll og þar eru nefnd sem eru hin sömu og í jarðræktarlögunum. þ. e. ¼. Því þessi orð: „sem um semst“ víkja fyrst og fremst að því hvernig þetta á að greiðast; sumar framkvæmdir ná ekki jafnt til allra og er þetta sjerstaklega tekið fram vegna veganna. Það eru vegirnir, sem raska kostnaðarbyrðinni; sumir bændur verða svo settir, að þeir hafa alls enga vegi, eða of langt frá þeim, en aðrir eru rjett hjá vegunum. Það er þetta meðal annars, sem gerir það, að einmitt vegirnir verða að skoðast sem hluti af Flóaáveitunni.