12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

14. mál, áveita á Flóann

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins fáein orð til háttv. þm. Str. (TrÞ). Hann sagði, að það hefði verið komið of seint með Skeiðaáveituna til Búnaðarfjelags Íslands, en jeg get bent honum á, að það er ekki enn búið að grafa alla skurðina eða hlaða alla þá flóðgarða, sem þarf. Verkið er því ekki búið enn og þá heldur ekki of seint komið með það mál fyrir Búnaðarfjelagið. Ennfremur sagði hann að það væri ekki nóg að í frv. væri aðeins gert ráð fyrir vegum og mjólkurbúum: fleira þyrfti að gerast. En það er tekið fram í aths. við frv. að um fleira geti verið að ræða og eins getur það og komið fram við rannsókn síðar, en fellur það þá undir frv.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var óánægður yfir því, að ríkissjóðstillagið væri ekki ákveðið eða fjárframlögin yfir höfuð. Hv. 1. þm. Árn. (MT) hefir nú bent á, af hverju þetta stafar, sem sje af því, að vegirnir koma svo ójafnt niður, að það er ekki hægt að ákveða þetta fyrirfram. Það var tilgangur stjórnarinnar að láta sig ekki muna um nokkra tugi þús. kr. úr ríkissjóði til þess að áveitan kæmi þá heldur betur að notum. En ef hv. landbúnaðarnefnd eða Alþingi vill setja einhverjar skorður við því, þá er það á þess valdi, en stjórnin vildi heldur hafa óbundnar hendur í þessu efni.

Viðvíkjandi till. um að þetta mál fari til samgöngumálanefndar verð jeg að segja það að ef nokkurt mál er landbúnaðarmál, þá er þetta mál landbúnaðarmál, og ber því auðvitað að vísa því til landbúnaðarnefndar.