04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

14. mál, áveita á Flóann

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg ætla aðeins að láta falla hjer nokkur orð í beinu framhaldi af því, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls. Jeg verð að líta svo á, að þau hafi enga áheyrn fengið, en jeg vil ekki láta við svo búið standa, og verð jeg algerlega að mótmæla því, hvernig frá þessu máli er gengið. Jeg er hiklaust á þeirri skoðun, að það skipulag, sem verið hefir um þessar framkvæmdir, sje algerlega rangt. Það er svo, og á að vera svo, að Búnaðarfjelag Íslands er einn meginliður í stjórn landbúnaðarmálanna og ætti að hafa mikið um þetta mál að segja. Það hefir fjölda sjerfræðinga í sinni þjónustu, og þessir menn eru í raun og veru starfsmenn ríkisins engu síður en aðrir, sem eru í þjónustu þess, og þó er það svo, að í öllu þessu máli hefir þessi stofnun, Búnaðarfjelag Íslands, verið algerlega hundsuð; það hefir verið hlýtt eingöngu ráðum þeirra manna, sem hafa haft þekkingu á aðeins annari hliðinni, sem að þessu starfi veit, „teknisku“ hliðinni, nefnilega hvernig á að fara að því að grafa skurði. Þetta álít jeg rangt, og sömuleiðis hygg jeg, að það muni koma illa niður á þeim, sem verkið eiga að þiggja, og er það því verra, sem annað verk, sem unnið hefir verið á sama hátt, gefur ekki mikla hvatningu til að slík aðferð sje höfð. Tala jeg þar um aðra áveitu fyrir austan fjall, sem farið hefir á sömu leið með. Verkið, sem framkvæmt var á svæðinu, varð eitthvað fjórum sinnum dýrara en búist var við, og þegar til framkvæmdanna kom, var svo að segja alt saman komið á heljarþrömina. Reyndin varð alt önnur en þeir sögðu, sem fyrir verkinu stóðu, og svo hafði líka verið vanrækt að athuga, hvernig menn áttu að geta lifað af þessu landi og ráðið við að borga rentur og afborganir af þeim lánum, sem þurfti að taka.

Jeg vildi láta það koma fram í þessari hv. deild, að einhver hafi verið, sem mótmælti þessari aðferð, mótmælti þeirri aðferð til þess að rjetta við landbúnaðinn, er gerð er að óvilja þeirrar stofnunar, sem helst allra ætti að hafa hönd í bagga með þeim málum.