04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

14. mál, áveita á Flóann

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla ekki að flytja langa ræðu um þetta mál, aðeins vil jeg ósanna þau ummæli hv. þm. Str. (TrÞ), er hann viðhafði um nefna þá, sem um þetta mál hefir fjallað. Við sýndum búnaðarmálastjóra þá sjálfsögðu kurteisi að kveðja hann á fund hjá okkur, en hann kvaðst engar till. hafa að gera um þetta mál eins og komið væri, því að það hefði aldrei verið undir sig borið. Þess vegna álít jeg, að ásakanir í garð nefndarinnar hvað þetta snertir sjeu ekki maklegar. En mig furðar á því; að vinur minn, háttv. þm. Str., hefir ekki komið auga á þá miklu nauðsyn, sem hann telur á því að bera þetta mál undir búnaðarmálastjóra, fyr en nú, að það er komið til 3. umr. í þessari hv. deild, því að jeg man ekki til, að hv. þm. (TrÞ) benti neitt til þess við fyrri umr., að álits búnaðarmálastjóra væri leitað á málinu.

Hvað það snertir að breyta til um stjórn á þessu fyrirtæki, þá ætla jeg ekki að fara út í það, hvort slíkt mundi heppilegt eða ekki; en það er mitt álit og mín reynsla, að framkvæmdirnar verði ekki því betri, því fleiri sem fara að fjalla um málið. Annars liggur það í hlutarins eðli, að það verður að vera ríkisstjórnin, sem hefir yfirtökin um þetta mál, en jeg skal fúslega viðurkenna það, að ef Búnaðarfjelag Íslands hefði mönnum á að skipa, sem treystandi væri í þessum greinum, þá færi síður en svo illa á því, að allar búnaðarframkvæmdir væru undir það bornar. En landbn. er á engan hátt ásökunarverð fyrir framkomu sína í þessu máli.