29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

1. mál, fjárlög 1927

Þorleifur Jónsson:

Það var aðallega út af tillögum samgöngumálanefndar, sem jeg kvaddi mjer hljóðs. Það er satt best að segja, að jeg hefi lítinn tíma haft til að athuga till. hv. nefndar, eins og gefur að skilja, þar sem nál. var ekki útbýtt fyr en á þessum fundi, og fer jeg því þess á leit við háttv. samgmn., að tillögur hennar verði látnar bíða til 3. umr. og komi því ekki til atkvæða að þessu sinni. Það hefir líka oftast verið venja áður, að endanlegar ályktanir um samgöngur á sjó hafa ekki verið gerðar fyr en við 3. umræðu fjárlagafrv. Jeg vil samt við þetta tækifæri geta þess, að jeg tel framlag til Hornafjarðarbátsins of lágt áætlað hjá nefndinni, 7 þús. kr. Það er minna en til hans er varið í ár, sem er síst of mikið. Það er alkunna, að það er ekki unt að halda þar uppi samgöngum fyrir þetta fje nema 2–3 mánuði að vorinn og 2 mán. á hausti. Það hefir verið haldið uppi bátaferðum þar að vorinu frá því í marsmán. fram í júní og að haustinu frá miðjum sept. til októberloka. Þegar styrkurinn er ekki meiri en þetta, verða þetta þær einu samgöngur, sem Skaftafellssýslur fá að sumrinu, en það er ófært að eiga ekki kost á bátaferðum alt sumarið, en til þess mundi þurfa að veita um 10–12 þús. kr. alls. Jeg mundi bera fram brtt. um þetta, ef jeg ætti kost á því, til að fá framlagið til Hornafjarðarbátsins áætlað eitthvað hærra en þetta, sem hjer er gert ráð fyrir, þar eð ekki blæs mjög byrlega að fá samgöngur á Hornafjörð bættar á annan hátt á næstunni. Einu samgöngurnar, sem við þar eystra eigum kost á alt sumarið, eru þessar umræddu bátaferðir, og það er ekki nema sanngjarnt að mælast til, að gert verði kleift að halda þeim uppi alt sumarið.

Jeg fer ekkert út í skýrslu háttv. frsm. samgmn. um samgöngur á sjó, sem felur í sjer ýmislegan fróðleik. En þar er þó sýnilegt, að útkoman er ekki mikið betri nú en fyrir 20–30 árum síðan. Háttv. frsm. (JAJ) virtist vera rogginn út af því, að eitthvað hefðu þó samgöngur lagast á þessum áratugum. En hvað Hornafjörð snertir, þá er mjer kunnugt um það, að þar er ekki um framför að ræða í samgöngum, heldur miklu fremur afturför.

Og þegar tekið er tillit til þeirra framfara, sem orðið hafa á ýmsum sviðum — t. d. má geta þess, að hestvagnar voru lítið notaðir fyrir 20 árum, bílar voru óþektir o. s. frv. — þá verður ljóst, að í strandferðum er ekki um mjög miklar framfarir að ræða, samanborið við samgöngubætur á landi. Mjer skildist á ræðu háttv. frsm. (JAJ), að hún ætti að vera nokkurskonar innlegg á móti tillögum þeim, sem hjer var rætt um fyrir nokkrum dögum, — að koma upp nýju skipi til strandferða, sem smærri hafnirnar mættu hafa meira gagn af en nú. Jeg hefi altaf skilið starf samgöngumálanefndar svo, að það ætti að vera sjerstaklega hennar verk að gera tillögur um sem haganlegastar strandferðir og flóabátaferðir, og reyna að samræma þær sem best, en að það væri ekki sjerstaklega hennar hlutverk að verja landið eða einhverja hluta þess gegn bættum samgöngum. (TrÞ : Heyr!).

Úr því jeg stóð upp, ætla jeg með fáeinum orðum að minnast á nál. fjvn. um símalínuna sunnanlands. Þó að hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) hafi vel fært fram rök nefndarinnar í þessu máli, vil jeg þó láta fylgja því nokkur orð frá sjálfum mjer. Hinar afskektari sveitir í Skaftafellssýslum hafa sífelt á síðari árum óskað eftir símalínu frá Hornafirði og vestur á bóginn; en um þessi hjeruð falla mörg vötn og stór; erfiðleikar eru miklir á öllum samgöngum, t. d. að vitja læknis o. s. frv., og er því hin mesta nauðsyn að fá síma um þessar sveitir landsins. Í fyrra bað jeg landssímastjóra um áætlun um kostnað við símalínu úr Hornafirði að Kálfafellsstað í Suðursveit, og áætlaði hann, að hún kostaði 29 þús. kr. En það var áætlað þannig, að gert var ráð fyrir, að línan yrði af allra einföldustu gerð. Nú í vetur hefi jeg aftur sent landssímastjóra brjef með ósk um, að þessi lína yrði nú tekin upp í fjárlög. Þegar landssímastjóri átti tal við fjvn., skýrði hann henni frá tillögum sínum um þetta mál. Hann taldi rjettara, að landssíminn yrði tengdur saman sunnan um land og taldi engin sjerleg tormerki á því, að það yrði gert. Þó að símalínan slitnaði vegna Skeiðarárhlaupanna, sem venjulega koma með 6–11 ára millibili, taldi landssímastjórinn það ekki meiri símabilun en nú verður oft á fjöllum norðan- og austanlands í stórhríðum að vetrarlagi. Að öðru leyti taldi hann, að sambandið við Seyðisfjörð yrði þá fyrst örugt, þegar símasamband væri komið líka sunnanlands. Hann hjelt því fram, að símasambandið yrði jafnvel tryggara með Suðurlandslínunni, því að bilunarhættan mundi verða lítil þar, að undanteknu þegar Skeiðará hleypur. Þessi lína mundi og gefa tiltölulega meiri arð fyrir ríkissjóð en þó að hafðir yrðu smáspottar af símalínum austur á við frá Vík og vestur frá Hornafirði. Samkvæmt þessum fyrirætlunum, þá hætti jeg við að bera fram tillögu um símalínuna að Kálfafellsstað. Og landssímastjórinn hættir við að reisa loftskeytastöðina í Öræfum í sumar, og get jeg því aðeins fallist á það, að farið verði að öllu leyti eftir tillögum landssímastjóra um Suðurlandslínuna, sem jeg sterklega vona, þar sem fjárveitinganefnd mælir eindregið með því.

Mjer virtist hæstv. atvrh. taka vel undir þetta mál, og skildi jeg hann svo, að hann vildi fylgja fram till. landssímastjóra og vilja fjvn. í þessu efni. Vona jeg, að það sje vilji þingsins yfirleitt, að þessi lína verði lögð og á þennan hátt. Landssímastjóri leggur til, að byrjað verði á efnisflutningi og öðru slíku árið 1928, en svo verði línan lögð 1929 og 1930. Vonandi koma ekki þau ósköp fyrir okkur, að ekki verði hægt að veita fje til þessarar línu, sem er eina stórlínan, sem ólögð er. Jeg veit, að það er leitt, hvað dregst að Öræfin fái skeytasamband. En þeir verða þó að láta sjer þetta lynda núna, þegar þeir eiga von á að fá talsímasamband innan skamms. Vona jeg, að þeir geri sig ánægða með það.