29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var að reyna að draga í efa, að skýrsla mín um strandferðir væri rjett, en þó vildi hann ekkert fullyrða. Hann sagði, að viðkomur væru færri nú á smáhöfnunum en áður. Jeg vil kenna hv. þm. um, ef svo er í hans hjeraði. Jeg sje ekki annað en að 229 viðkomur í einni sýslu sje sæmilegt, og mætti jafna því niður með góðum árangri. En það hygg jeg, að vaki fyrir hv. 1. þm. S.-M., að fá Esju til þess að koma við á öllum höfnunum í hans hjeraði í öllum ferðunum. Annars er það alveg skakt, að ferðirnar sjeu verri nú, eins og hv. þm. (SvÓ) sagði, og tók til dæmis Mjóafjörð. Þar ætti hann að þekkja svo vel til, að hann vissi, hversu margar ferðir væru þangað. Hann sagði, að þær væru 10, en þær eru 15, 10 Esjuferðir og 5 millilandaskipaferðir, og er þó í Mjóafirði helmingi færra fólk á sumrin en áður var, því að á þeim tíma, sem hjer um ræðir, var þar stór hvalveiðastöð.

Þá gat háttv. þm. (SvÓ) um það, að í Keflavík væru engar viðkomur. Það er alveg rjett, en þangað liggur bílvegur, svo að það væri hreinasta heimska að láta strandferðaskip koma þar við. Fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri er sjeð með „Skaftfellingi“. Það er líka miklum mun þægilegra fyrir Skaftfellinga að hafa „Skaftfelling“ til vöruflutninga heldur en strandferðaskip, sem ekki getur beðið eftir því að losa vörurnar, ef ilt er í sjóinn. Að nokkrar hafnir, sem jeg taldi upp, að áður hefðu haft viðkomur skipa, hafi fallið niður, er ekki nema eðlilegt. Jeg skil ekki, að nokkurt vit sje í því að láta strandferðaskipin koma við í Fjallahöfn eða Gunnólfsvík. Það var nú svo sem ekki komið við á öllum þessum höfnum áður, þó á áætlun stæðu. Það var síður en svo. Þetta var bara á pappírnum; altaf farið framhjá ef veður var vont, lítill flutningur, eða skipið, sem koma átti við, yfirfult af fólki og farangri, en býsna oft voru þessar ástæður fyrir hendi, eða einhver þeirra.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að ekki væri misbrestur á skýrslunum frá flóabátunum. Jeg hygg nú samt að svo sje. Við höfum beðið um skýrslur úr stjórnarráðinu, en höfum aðeins fengið þær frá tveim bátum, sem altaf senda skýrslu, Djúpbátnum og Skaftfellingi. Auk þess fengum við skýrslu frá Hvalfjarðarbátnum senda beint. Hann er eini báturinn af smærri bátunum, sem altaf sendir reglulegar skýrslur til þingsins eða atvinnumálaráðuneytisins

Þá hefði jeg þurft að segja nokkur orð við hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Vona jeg, að sessunautur hans riti það hjá sjer, svo að hann geti svarað mjer, þegar hann kemur. Mjer þykir undarlegt, að hann, sem er form. fjvn., skuli gefa í skyn, að samgmn. eigi ekkert að hugsa um, hversu mikið fje gangi til samgangnanna, heldur eigi hún að gera tillögur um, á hvern hátt samgöngurnar sjeu bestar. Ef á að lifa eftir þessu boðorði, þá er ekki vandlifað fyrir samgmn. En sem betur fer hygg jeg, að þingmaðurinn í hv. form. fjvn. rísi upp gegn þessari hans ályktun og vilji líta nokkuð á kostnaðinn. Vænti jeg, að ekki þurfi að endurtaka þetta við hv. þm. Annars virðist þessi hv. þm. (ÞorlJ) heldur ekki þekkja til í sínu eigin hjeraði, þegar hann segir, að 11 ferðir 1908 sjeu betri en 6 ferðir nú og 8000 króna styrkur. Jeg hjelt þó, að það væri hægt að fá fleiri en 5 ferðir fyrir 8000 kr., þegar 800–900 manns nota bátinn. Í Austur-Skaftafellssýslu eru 1150 menn, en Öræfin nota Skaftfelling, en ekki Hornafjarðarbátinn. Ef hv. þm. (ÞorlJ) heldur, að samgmn. viti ekki neitt um Hornafjörð, þá skjátlast honum mjög. Hann segir, að jeg hafi verið mjög hróðugur yfir því, að samgöngurnar væru ekki verri nú en fyrir 20 árum. Jeg hefi aldrei lýst því, hvort jeg væri ánægður með þær samgöngur, sem nú eru, eða ekki, en hinsvegar vil jeg ekki láta það óátalið, ef blekkja á þá, sem minna vita, með því að segja, að samgöngurnar sjeu lakari nú en áður, þegar það er vitanlegt, að þær eru miklu betri. Það var vegna þessara blekkingartilrauna nokkurra hv. þm., að jeg tók mjer fyrir hendur að rannsaka málið og gera skýrslu.

Það, sem hv. þm. A.-Sk. vill fá styrk til, er að geta flutt sjávarafurðir frá Hornafirði og austur á firði, og svo aftur ýmislegt til útgerðar þaðan og til Hornafjarðar. En þetta er á móti því, sem nokkurntíma er gert annarsstaðar. Ísfirðingar fá til dæmis engan slíkan styrk. Þeir verða að sjá um alla þessa flutninga af eigin ramleik. Þeir fara norður á Húnaflóa og stunda þar sjóróðra yfir sumartímann. Þeir leggja saman og kaupa bát, en dettur ekki í hug að fara fram á styrk. En þegar forsjárleysið er svo mikið, að ekki er til salt í veiðistöðinni, þegar ein vika er liðin af vertíðinni, þykir mjer það nokkuð hart, að hrópað er á landssjóðsstyrk til aðflutninga á salti; en svona var ástandið í Hornafirði, þegar ein vika var liðin af vertíðinni. Eigi samgöngumálanefnd að vera þeim slík forsjón, sem ekki búa betur í haginn fyrir sig en þetta, þá ætla jeg að biðja um lausn úr nefndinni.

Við verðum að játa, að samgöngur á landi eru á eftir samgöngum á sjó, enda þótt samgöngur á sjó sjeu ekki eins og þær gætu bestar verið, en þær eru eins góðar og við getum búist við fyrir það fje, sem við látum til þeirra. En þegar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) heldur því fram, að það megi draga af flóabátastyrknum, ef við fengjum 2 strandferðaskip, er það ekki rjett, því að það er vitanlegt, að slíkt flutningaskip kemur ekki að notum þeim 30 þús. manns, sem nota flóabátana. Okkur þótti Austri og Vestri góðir á sinni tíð, en þeir höfðu með naumindum farrými handa 60 manns hvor. Esja hefir rúm fyrir 165 manns, og er það talsvert meira en báðir hinir til samans.

Þá ætla jeg aðeins að víkja að einni eða tveimur brtt. á þskj. 230. VI. brtt. er frá hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), um lokastyrk til byggingar sjúkrahússins á Ísafirði. Það var álitið, þegar þessi styrkur var fyrst fluttur hjer á þingi, að kostnaðurinn mundi ekki verða 75 þús. kr., heldur hálfu meiri, enda held jeg, að af þeim verkum sem framkvæmd hafa verið á seinni árum, hafi ekki mörg verið betur framkvæmd en sjúkrahúsið á Ísafirði að öllum myndarskap. Húsið er bæði prýðilegt og hefir ekki farið fram úr áætlun, eins og oft vill verða. Vona jeg, að háttv. þingdeildarmenn geti verið því meðmæltir að veita þennan styrk, ekki síst þegar þess er gætt, að búið er að leggja nær 60 þús. kr. í sjúkrahús fyrir austan fjall, og sjást þó engar verulegar menjar þess fjár. Ekki ætla jeg að andmæla neitt hv. þm. Árn. (MT og JörB). Það er ekki þeim að kenna, en það verð jeg að segja, að mikill er munurinn á framtaksseminni þarna fyrir austan eða á Ísafirði, ef dæma má eftir sjúkrahúsunum.

Jeg þarf engu við að bæta orð hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) um veginn milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Það er mikið nauðsynjamál, og mæli jeg að sjálfsögðu með, að það verði styrkt eins og hægt er.