18.02.1926
Neðri deild: 9. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

12. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg býst nú við, að ýmsum hjer í þessari hv. deild þyki þetta smámál, sem hjer liggur fyrir. Það skal að vísu játað, að þetta er ekki stórmál, og þó er þetta einn þátturinn í merkilegu starfi til eflingar landbúnaðinum og aukinni framleiðslu í landinu.

Þótt ekki ætli jeg að fara að gera þýðingu búfjárkynbóta alment að umræðuefni, get jeg þó ekki í þessu sambandi stilt mig um að henda á reynslu annara þjóða í þessum efnum og hverja fjárhagslega þýðingu búfjárkynbæturnar hafa haft fyrir þær.

Hversu mikla þýðingu hefði það ekki, ef hægt væri að hækka meðaltalsnythæð kúnna okkar um 500 pt. á ári án verulegs aukins fóðurkostnaðar, eða auka svo skrokkþunga dilkanna okkar, að næmi svo sem 2 kg. á lamb hvert að meðaltali án teljandi fóðurauka. Og síðast en ekki síst vil jeg benda á þá þýðingu, sem það gæti haft, ef okkur tækist að auka svo þroska og fjör hestanna okkar, að þeir yrðu ennþá nothæfari til allskonar vinnu en þeir eru nú, og þá um leið stórum verðmætari útflutningsvara. Slíkar umbætur á búpeningi okkar, sem jeg nú hefi nefnt, mundu án efa auka framleiðslu þjóðarbúsins um miljónir króna. Tökum t. d. mjólkuraukann, sem jeg nefndi áðan. Enda þótt hver pottur væri ekki reiknaður nema á 30 aura, mundi hann einn nema 3 miljónum króna.

Einhverjir kunna nú að halda, að jeg sje hjer að fara með öfgar. En svo er ekki, því að það er alkunna af samanburði við búpening annara þjóða, að efniviðurinn í okkar búpeningi er sjerstaklega góður, en bara að mestu ótelgdur ennþá.

Þess vegna er það augljóst, að þjóðfjelaginu væri mikill hagur að styðja slíka viðleitni, m. a. með lagasetningum. Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er verulegt spor í þá átt, það sem það nær.

Því miður er því svo háttað, að víða á landinu er lítill áhugi og jafnvel skilningsleysi á kynbótum hesta. Mörgum verður á að líta meir á stundarhagræði en framtíðarhag.

Til þess að sigla framhjá því skeri og fleirum, sem gætu gert framkvæmd laganna torvelda, hefir nefndarmönnum komið saman um, að rjett væri að draga fyrst um sinn lítilsháttar úr þeim ákvæðum frv., sem örðugast mundi að framfylgja og valda mundu mestri óánægju.

Væntir nefndin þess, að verði brtt. hennar samþyktar, mundi lögunum betur hlýtt.

Vil jeg þá fyrst nefna 2. brtt. a., við 5. gr. Fyrir orðin í fyrri málsgrein 5. gr. „skal gelda fyrir 20. apríl ár hvert“ komi: skal gelda eða taka í örugga vörslu fyrir 14. maí ár hvert. — Er það kunnara en frá þurfi að segja, að oft getur staðið svo á, að mjög sje bændum óþægilegt að taka hestana inn 20. apríl og gefa þeim. Óttuðust nefndarmenn, að þegar hart væri í ári, gæti farið svo að kynbótanefndin lokuðu augunum fyrir yfirtroðslum, laganna og hjeldu með því móti opnum dyrunum fyrir lagabrotum eftirleiðis.

Að þessu sama miðar 2. brtt. b., við 5. ár., þar sem ætlast er til, að eigandi hests verði ekki fyrir sektum, ef hann tekur hest sinn í trygga vörslu. —

Þá hefir nefndin viljað rýmka eitt ákvæði í niðurlagi 6. gr. og láta í stað orðanna: „og selja án innlausnarfrests“, koma: og selja með 4 vikna innlausnarfresti.

Þá vil jeg geta þess, að nefndin hefir aftur hert á ákvæði 3. gr. Í stjfrv. er gert ráð fyrir, að hestakynbótanefnd gefi leyft, að kynbótahestar gangi lausir í heimahögum. Þessu ákvæði viljum við breyta þannig, að kynbótanefnd hafi heimild til þess frá 1. okt til 20. apríl. en einnig frá 20. apríl til 1. okt., og í síðasta sinni árið 1930.

Meiningin er til 1930 að gefa hrossaeigendum tíma til að koma sjer upp girðingum fyrir hesta sína, svo að hægt sje að hafa þá í tryggum vörslum, án þess að þeir geri öðrum tjón í kynbótastarfseminni.

Að endingu vil jeg geta þess, að komið hefir til tals, að ástæða væri til að merkja betur hesta en gert hefir verið, t. d. með brennimarki á hóf, svo að sjá megi úr hvaða sýslu hann sje. En nefndin leit svo á, að þetta væri fyrst og fremst einkamál hvers eiganda að tryggja sem best eign sína.

Þá man jeg ekki eftir fleiru, sem ástæða er til að taka fram í þessu sambandi.

Vænti jeg þess, að málið fái fram að ganga. Álits búnaðarráðunauts hefir verið leitað um aðalatriðið, sem sje færslu tímans til 14. maí, og var hann okkur sammála um það.