15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Jeg stend aðeins upp vegna þess, að hvorki höfundur brtt. á þskj. 129 nje hv. frsm. landbn. hafa enn beðið um orðið. Mjer kemur það óneitanlega hálfkynlega fyrir, að hv. landbn. ber ekki fram brtt. við 3. gr. Því að eins og jeg gat um við 2. umr., getur hæglega farið svo, að bestu kynbótahestaefnin verði ekki valin ef það á að vera alveg undir eigendum hestanna komið, hvort þeir vilja láta því fyrir sanngjarna borgun. Ef svona verður frá þessum lögum gengið, er öll hætta á því, að frumvarpið verði að litlum notum: það er því full ástæða til að gera frv. svo úr garði, að bestu folarnir verði notaðir til undaneldis. En eins og frv. er nú, er það alveg undir kynbótanefndinni komið, hvort hún vill nokkuð til vinna að ná besta hestinum, og er þá hætt við, að hún sleppi honum, ef hann fæst ekki með jafngóðum kjörum og sá lakari. — Á móti brtt. á þskj. 129 þarf ekki að tala. Jeg geri ráð fyrir, að hv. deild verði sjálfri sjer sammála og felli hana.