15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Jeg vil leyfa mjer að mótmæla þeim skilningi hv. 4. landsk., að hjer sje um að ræða óskylt mál kosningum í hreppsnefnd. Þetta er einmitt ein þeirra nefnda, þar sem er sami kosningarrjettur og kjörgengi eins og í hreppsnefnd. Eins er það t. d. um fræðslunefnd, forðagæslunefnd o. fl. Þeir háttv. þm., sem vilja skylda konur til að taka við kjöri í hreppsnefnd, geta því ekki staðið sig við að greiða þessari brtt. atkv. En það væri svo sem ekki nema hvað eftir öðru, þótt þessi vitleysa kæmist inn í frv., svo að það yrði að öllu leyti sem ánalegast. — Þá vil jeg alvarlega mótmæla þeirri skoðun hv. frsm. (ÁH), að kynbótanefndin eigi að geta gengið frá bestu kynbótahestaefnunum, þótt þeir væru ögn dýrari en þeir, sem væru aðeins í meðallagi eða minna. Mjer finst það alls ekki samboðið hv. Alþingi að semja lög eins og þessi, sem láta verða miklar líkur fyrir því, að valdir verði til kynbóta hestar, sem eru lakari en í meðallagi, sakir þess, að þeir verða ódýrari en úrvalsfolar.