15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

12. mál, kynbætur hesta

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er alveg rjett hjá hv. 4. landsk. (IHB), að ekki þarf að fara saman kjörgengi í hreppsnefnd og hrossakynbótanefnd. Þetta sjerstaka ákvæði í 2. gr. sýnir einmitt, að það er ekki nauðsynlegt að svo sje. Því að ef svo væri, væri 2. gr. alveg óþörf. Út af því, sem háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) sagði um samkomulagið við eigendur hestanna, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að leita verði samþykkis eigendanna, því að ekki er hægt að taka hest að eiganda nauðugum án þess að eignarnám komi til. Auðvitað liggur það í starfi kynbótanefndar, að hún má ekki ganga framhjá bestu hestunum. Þó er það ekki svo, að hún eigi að kaupa besta hestinn, hvað sem hann kostar, því að það gæti hæglega orðið til þess að ýta undir hrossaeigendur með það að vera of harðir í kröfum sínum. Jeg skil því umrætt atriði frumvarpsins þannig, að kynbótanefnd eigi jafnan að velja og fá bestu hestana, ef þeir eru fáanlegir á verði, sem ekki getur talist ósanngjarnt.