15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

12. mál, kynbætur hesta

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg þarf ekki að svara ræðu hv. 1. landsk. (SE). Það nær vitanlega engri átt, að í brtt. hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) felist nokkurt vantraust á kvenþjóðina yfirleitt. Og því síður er hjer um að ræða ósamræmi í skoðunum mínum frá því, sem jeg hjelt fram við umr. um kosningar í málefnum sveita og bæjarstjórna. Jeg hjelt því fram, sem jeg líka veit, að er almenn skoðun, að sömu rjettindum eigi að fylgja sömu skyldur. En eins og hæstv. atvrh. (MG) tók fram, þá er engan veginn sjálfsagt, að þessar kosningar fari fram eftir sömu reglum og kosningar í málefnum sveita og bæjarstjórna, sbr. 2. gr. frv. þessa. Jeg held því fast við mína fyrri skoðun, þótt jeg fylgi brtt. hv. 1. þm. Eyf. nú, því hjer er um annað mál að ræða. Jeg skoða þessa till. alveg rjettmæta, vegna þess, að jeg veit, að það er enginn hörgull á karlmönnum, sem hafi betra vit og hæfileika til þess að starfa í slíkri nefnd sem þeirri, er hjer er um að ræða, svo það væri að sækja vatn yfir lækinn að seilast eftir konum í kynbótanefndirnar.