29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1927

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla mjer ekki að ræða um þær brtt., sem jeg er riðinn við, þótt ástæða væri til að segja ýmislegt um þær. Jeg stóð upp aðeins til að taka afstöðu til brtt. á þskj. 245, frá fjhn. Hún er svo fram sett, að það má virðast, að fjhn. standi óskift um hana. En jeg gat ekki fallist á ástæður hinna um að fella niður skólagjöldin. Jeg bjóst því við, að tillagan kæmi fram sem till. frá meiri hl. fjhn., eða þá að frsm. hennar mundi geta þess í framsögunni, að jeg væri á móti henni. Skólagjöldin eru vitanlega sett til þess að jafna aðstöðu þeirra, er skólana sækja þeirra er geta sótt þá frá heimilum sínum, og hinna, sem það geta ekki, og tel jeg þau síst of há til að jafna þann mun, og tel jeg því rjettmætt að hafa þau, sjerstaklega þegar heimild er þá til þess að veita fátækum, efnilegum nemendum undanþágu frá gjaldinu. Það er að vísu rjett, að ríkissjóðinn munar minna um þetta en einstaklingana, en slíkt má segja um svo margt, t. d. skatta og tolla. Ríkissjóðinn munar minna um framlag einstaklingsins en einstaklinginn sjálfan.

Jeg vildi aðeins leiðrjetta þetta, til þess að menn misskildu ekki, hvers vegna jeg greiði atkv. á móti þessari brtt.