29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1927

Sigurjón Jónsson:

Jeg er hv. frsm. og hv. fjvn. þakklátur fyrir undirtektir við brtt. mína, II. á þskj. 230, og býst við, að skoða megi þær sem fyrirboða þess, að brtt. verði samþykt, því að það er, eins og hv. frsm. rjettilega tók fram, ekki hægt fyrir ríkissjóð að komast hjá því að greiða þennan styrk fyr eða síðar.

Út af því, sem háttv. þm. Borgf. (PO) sagði, að vextir væru ógreiddir, þá er það rjett. Vextir voru síðast greiddir 27. ágúst 1924. Þetta vil jeg upplýsa, til þess að ekki sje hægt að segja, að nokkur launung sje yfir því af minni hálfu. En þá voru greiddir vextir fram yfir áramót 1924, svo að nú eru liðugir tveggja ára vextir ógreiddir.

Þá vil jeg minnast á aðra brtt., sem jeg her fram á þskj. 230, um lokastyrk til byggingar sjúkrahúss á Ísafirði. Mjer þykir vænt um, að hv. fjvn. hefir getað ljeð fylgi sitt með þeim rjettmætu tilmælum að fá þennan 1/3 hluta, sem ríkissjóður á enn ógreiddan. En jeg skal geta þess, að hjer er ekki að ræða um liðug 7 þús., heldur tæp 8, eða sem nákvæmast 7716 krónur. Það er satt, að inn í þetta mál hefir blandast verðtollur, sem farið er fram á, að gefinn sje eftir. Það er ekki ósanngjörn krafa. Þegar áætlun var gerð um bygginguna, var hvorki til verðtollur nje 25% gengisviðauki, en af báðum þessum ráðstöfunum þingsins varð sjúkrahúsbyggingin dýrari en ella. Jeg fór fram á, að þetta væri eftir gefið í fyrra, en því var þá synjað. Þótti mjer því rjett að slengja 2000 kr. ofan á þessa upphæð nú. Það hefir verið borgað af Ísafirði í ríkissjóð meira en sú upphæð vegna verðtollsins og gengisviðaukans. Jeg vænti því, að háttv. deild sjái, að hjer er ekki um ósanngirni að ræða.