10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

12. mál, kynbætur hesta

Gunnar Ólafsson:

Jeg vildi aðeins ítreka það, sem hv. 1. þm. Rang. (EP) hefir tekið fram, að þetta mál hefir verið athugað í landbn. Þessar brtt. frá Nd. breyta yfirleitt litlu að efni til, en nefndin lítur svo á, að þær sjeu fremur til bóta. Þetta, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, að hann þyrfti að fá tíma til að koma með brtt., finst mjer ástæðulaust að taka til greina, og jeg legg á móti því, að deildin leiki sjer þannig með þetta mál. Að vísa því til nefndar aftur er þýðingarlaust. Nefndin hefir sagt það, sem hún vill segja og þarf að segja. Að gera kröfu til þess, að nefndin komi með langt álit um jafnkunnugt mál, er algerlega óþarft. Hún þarf ekki að taka neitt fram, þar sem um engan ágreining er að ræða. — Jeg vil ítreka það, að jeg tel óþarft að taka málið af dagskrá og sje ekki annað en vel megi afgreiða það strax.